139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi eiga orðastað við hv. þm. Mörð Árnason, formann umhverfisnefndar, út af mjög alvarlegu máli sem fregnir hafa borist af. Nú lítur út fyrir að hæstv. umhverfisráðherra hafi skrifað undir verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs sem gerir ráð fyrir því að verið sé að ýta meginþorra íslensks útivistarfólks út úr þjóðgarðinum. Þegar þessar ætlanir voru kynntar af núverandi hæstv. utanríkisráðherra var það skýrt tekið fram að ekki ætti að takmarka aðgengi veiða eða aðra útivist. Útivistarfélögum var kynnt málið með þeim hætti að í garðinum okkar allra ætti að vera fullt samráð við aðila.

Ég hef ekki tíma til að rekja þetta mál í tveggja mínútna ræðu, en það er algjörlega ljóst að þetta hefur allt saman verið svikið. Nú hrynja inn ályktanir frá hinum ýmsu útivistarfélögum og fólk spyr sig eðlilega: Fyrir hvern á þessi garður að vera? Augljóslega á hann ekki að vera fyrir hina íslensku þjóð sem er búin að njóta útivistar svo áratugum skiptir, og árhundruðum ef svo ber undir. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. utanríkisráðherra taki þessu ekki létt. Hann tengist þessu máli beint því að hann setti það af stað og var þá með ákveðin fyrirheit. Ég spyr, virðulegi forseti, hv. þm. Mörð Árnason hvort hann ætli í krafti embættis síns sem formaður hv. umhverfisnefndar að fara yfir þetta mál (Forseti hringir.) því að það er alveg ljóst að það er ekki friður um þessar fyrirætlanir hæstv. ráðherra, enda mjög skiljanlegt (Forseti hringir.) þegar verið er að ýta því fólki út úr þjóðgarðinum sem er búið að nota hann svo áratugum skiptir.