139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

Vatnajökulsþjóðgarður -- framtíð krónunnar -- atvinnumál á Flateyri o.fl.

[14:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég veit út af fyrir sig ekki hverju ég ætti að bæta við þá umræðu sem við áttum um þetta efni í gær. Ég held að við getum fagnað því að vörugjöldin sem lögð eru á bensín og olíu og kolefnisgjöldin eru krónutölugjöld. Við gerðum ráðstafanir á árum áður til þess að ekki yrðu sjálfkrafa hækkanir á öllum gjöldum þegar bensín hækkaði. Virðisaukaskatturinn er hins vegar lagður hlutfallslega á bensínverðið og hækkar því með hækkandi olíuverði. Hér er þó enn skattheimta, bæði hlutfallslega og síðan útsöluverðið, ekki í neinum hæðum í þeim samanburði sem við gerum við löndin í kringum okkur. Ég held að það væri sannarlega fullkomið óraunsæi að halda því fram að ríkissjóður geti orðið af þeim tekjum sem ætlað er að hafa af virðisaukaskatti á yfirstandandi ári, það eru einfaldlega þær tekjur sem eiga að meira eða minna leyti að standa undir öllum rekstri ríkissjóðs í velferðarþjónustunni.

Hitt er alveg ljóst að hér geta orðið enn frekari verðhækkanir. Við þurfum að hafa áhyggjur af skammtímaáhrifum þess og ég ljæ máls á því að við tökum það til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd. Hvað langtímaáhrifum af hækkunum á matvöru og orku viðvíkur er það dæmi auðvitað miklu jafnara fyrir okkur Íslendinga vegna þess að framleiðsluvörur okkar sem þjóðar eru fyrst og fremst matvara og orka. Þess vegna fylgja því til lengri tíma litið margir kostir efnahagslega fyrir okkur samfara göllunum. (Forseti hringir.) En skammtímaáhrifum gætum við þurft að mæta og við skulum fara yfir það í efnahags- og skattanefnd.