139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

Vatnajökulsþjóðgarður -- framtíð krónunnar -- atvinnumál á Flateyri o.fl.

[14:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í morgun birtist frétt í Fréttablaðinu um að fleiri landsmenn vildu niðurskurð en skattahækkanir og af því tilefni langar mig til að beina fyrirspurn til hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur sem er formaður fjárlaganefndar og sér þá um niðurskurðinn.

Stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið sú að skattleggja mjög mikið. Almenningur hefur fundið fyrir því og fyrirtæki sömuleiðis. Þá hefur ríkisstjórnin verið mjög löt við virkjanir og svo hefur hún lagt til atlögu við og beint spjótum að sjávarútvegi. Allt þetta hefur leitt til stöðnunar, aukins atvinnuleysis og brottflutnings fólks úr landi. Það er ekkert sérstaklega gæfulegt að skera niður í þessari stöðu vegna þess að niðurskurður hlýtur að koma fram sem uppsagnir á starfsfólki ríkisins. 70% af kostnaði ríkisins eru laun.

Þá langar mig til að spyrja hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, formann fjárlaganefndar, hvort ekki sé kominn tími til að snúa frá þessari helstefnu hæstv. ríkisstjórnar og taka upp tillögur Sjálfstæðisflokksins sem hann hefur í tvígang komið með, þ.e. að skattleggja séreignarsjóðina og fella niður allar skattahækkanir þessarar hæstv. ríkisstjórnar.