139. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2011.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sat með hinum hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisnefnd og hlustaði á hv. þingmann og okkur fannst mjög áhugavert að heyra að hv. þingmenn meiri hlutans hefðu mikið rætt um húsnæðismálin, m.a. við ráðherra. Það er í sjálfu sér vel en við vorum ekki þar, við vitum ekkert hvað fór fram, höfum ekki hugmynd um það. Það skýrir kannski ýmislegt ef hv. þingmenn meiri hlutans funda mikið um þessi mál án okkar. Í það minnsta höfum við ekki fengið upplýsingarnar og vorum ekki við borðið þegar þessir hlutir voru ræddir. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að upplýsa þetta, við vissum þetta ekki og ágætt að vita af því. Ég mundi ætla að skynsamlegra væri að láta alla hv. þingmenn fá upplýsingarnar í málaflokknum, við erum oftar en ekki sammála, sérstaklega ef menn gefa sér tíma til að ræða málin en auðvitað verður meiri hlutinn að hafa sitt vinnulag.

Varðandi samlegð er almennt gott að nýta hana þar sem hún er en mér finnst umræðan oft vera svolítið á villigötum. Mér vitanlega hefur málaflokkur aldraðra aldrei verið skilgreindur. Hjúkrunarheimilin t.d. eru heilbrigðisstofnanir og það er ekki bara eldra fólk á hjúkrunarheimilum. Mikilvægt er að við höfum eftirlit með heilbrigðisþáttum og það sé skilgreint sem heilbrigðiseftirlit. Það er afskaplega mikilvægt. Ef fatlaðir eins og aðrir fá heilbrigðisþjónustu á að sjálfsögðu að hafa slíkt eftirlit með henni. En við skulum ekki heilbrigðisvæða aðra geira því heilbrigðismálin eru sérmálaflokkur af góðri ástæðu. Ef við ætlum að ná sem bestum árangri þar verðum við að halda því til haga. En alls staðar þar sem hægt er að spara er ég alveg til í athuga betur, sérstaklega ef það kemur ekki niður á þjónustu. Það er markmið okkar. Við viljum halda uppi þjónustustiginu með minni fjármunum. Það er verkefnið.