139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

aðgerðir innanríkisráðherra til að sporna við starfsemi skipulagðra glæpasamtaka hérlendis.

[14:37]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Í langan tíma hafa íslensk lögregluyfirvöld haft áhyggjur af því að skipulegir glæpahringir séu að sækja í sig veðrið á Íslandi. Mörg undanfarin ár hefur athygli dómsmálaráðuneytisins verið á þekktum erlendum glæpahringjum og sérstaklega hefur sjónum verið beint að komu forsprakka slíkra samtaka og hópa hingað til lands og reynt til hins ýtrasta að sporna gegn slíkum heimsóknum. Samtökin Hell's Angels, Vítisenglar, eru alvarlegt dæmi um glæpahring af þessum toga þar sem gert er út á lífsstíl útilegumannsins og flakkarans en undir niðri bærast harðsvíruð glæpasamtök sem, ef þau ná fótfestu á Íslandi, yrðu veruleg ógn fyrir íslenskt samfélag. Allt síðasta ár, sem dæmi, bárust fréttir af tengslum íslenska klúbbsins MC Ísland og Vítisengla, sérstaklega í Noregi. Fréttir báru með sér að um náið samband milli þessara klúbba væri að ræða og að stutt sé í að íslenski klúbburinn verði hluti af hinum alþjóðlegu samtökum.

Alþjóðlegi hringurinn Vítisenglar er dæmi um skipulagðan glæpahring sem svífst einskis í starfsemi sinni og stundar alvarleg afbrot. Ég nefni eiturlyfjasölu, mansal og önnur ofbeldisverk. Europol skilgreinir Vítisengla sem alþjóðleg glæpasamtök svo ekki þarf að velkjast í vafa um alvarleika málsins. Víst er að nái slík glæpastarfsemi fótfestu á Íslandi stafar gríðarleg ógn af henni fyrir borgara þessa lands og það er skylda yfirvalda hér að gera allt sem unnt er til að koma í veg fyrir að slíkt gerist.

Virðulegi forseti. Hér búa 320 þúsund manns, við höfum fámennt lögreglulið, það er engum vafa undirorpið að það kann að reynast okkur erfitt að bregðast við og stemma stigu við harðsvíruðum glæpahringjum ef þeim tekst að ná of mikilli fótfestu á Íslandi. Slík starfsemi er gríðarleg ógn fyrir lítið samfélag, ein sú allra alvarlegast sem við Íslendingar gætum nokkru sinni staðið frammi fyrir. Við megum ekki sofa á verðinum þegar öryggi landsmanna er undir. Það er frumskylda ríkisins að tryggja öryggi borgaranna og hrinda á bak aftur öllum tilburðum slíkra glæpahringja til að festa rætur hér með stofnun íslenskra útibúa. Við verðum því að tryggja að lögregluyfirvöld hafi þau tæki sem best nýtast í þessari baráttu.

Í mannfæðinni er vopn okkar í baráttu við glæpastarfsemi markvissar rannsóknir og það sem kallað hefur verið forvirkar rannsóknarheimildir. Í því felst að lögreglu sé heimilað að nota ákveðin úrræði til rannsóknar áður en brot er sannað. Reynsla nágrannaþjóða okkar sýnir að skýrar heimildir lögreglu eru ómetanlegar í baráttunni gegn skipulegri glæpastarfsemi. Víst er að slíkum heimildum verður að beita með ýtrustu gát og setja þarf slíkum heimildum varúðarreglur. Við mat á því hvort rétt sé að veita lögreglu auknar heimildir þarf að líta til þeirrar hættu sem fyrir hendi er og afleiðinga þess að glæpastarfsemi nái hér nýjum hæðum, og svo hins vegar hvernig með reglurnar skuli fara.

Ég tel skýrt, í ljósi þeirrar frumskyldu íslenskra stjórnvalda að tryggja öryggi borgara sinna og þeirrar ógnar sem af skipulegri glæpastarfsemi stafar, nauðsynlegt að lögreglan fái nauðsynlegar heimildir til að hrinda slíku á bak aftur.

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég hef þessa umræðu við hæstv. innanríkisráðherra er sú að ég hef fengið vísbendingar um að vaxandi ólga sé nú í íslenskum undirheimum. Vitað er að samtökin MC Ísland hafa um nokkurt skeið verið við það að verða hluti af Vítisenglum. Klíkumyndanir virðast vera hér vaxandi og átök og forherðing mikil. Ég vil því fá upplýsingar og svör hjá hæstv. ráðherra um hversu mikil þessi ógn er, hvort hún sé vaxandi eins og ég hef upplýsingar um og hvort hann geti upplýst um hvort Vítisenglar séu að undirbúa komu sína hingað í gegnum önnur samtök. Eins er nauðsynlegt að vita hvers eðlis þessi MC Ísland samtök eru og hvort hæstv. ráðherra hafi upplýsingar um hvað þau telja sig sækja til Vítisengla.

Reynsla nágrannalanda okkar segir að ekki dugi nein vettlingatök í baráttunni við alþjóðlega glæpahringi. Svo verður það líka að vera hér heima. Ég spyr hæstv. ráðherra nokkurra spurninga:

1. Getur ráðherrann upplýst um hvort aukinn þungi sé að færast í skipulega glæpastarfsemi á Íslandi og hvort líkur séu til þess að slíkir hringir séu að ná fótfestu hér?

2. Hvert er viðhorf ráðherra til þess sem kallað hefur verið forvirkar rannsóknarheimildir og hvaða þýðingu telur ráðherra það hafa fyrir lögreglu að hafa auknar heimildir í baráttunni við glæpahringi?

3. Telur ráðherra koma til greina að setja löggjöf gegn þessari starfsemi eins og Ragna Árnadóttir, forveri hans, boðaði á síðasta ári? Mun ráðherra berjast gegn því að hópar alþjóðlegra glæpahringja komi hingað til lands og hvað telur hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) í heimildum lögreglu helst duga til að sporna gegn þessari starfsemi?