139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

544. mál
[15:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Engin mannanna verk eru fullkomin. Það er enginn, hvorki stofnun né einstaklingur, með fullkomna dómgreind. Evrópusambandið fellur óhjákvæmilega, hvað sem sumum kann að finnast, undir skilgreininguna „mannanna verk“. Það er ekki fullkomið, því verða á mistök eins og öllum öðrum samtökum.

Þau dæmi sem hv. þingmaður rakti áðan eru að sönnu rétt. Sum þeirra fela í sér galla á tilskipunum Evrópusambandsins, í öðrum tilvikum má segja að þau dæmi sem hv. þingmaður rakti falli undir það að Evrópusambandið hafi einfaldlega ekki séð fyrir ákveðna þörf til að reisa skorður eða gera kröfur sem gætu t.d. hafa komið í veg fyrir þau djúpu krosseignatengsl sem hér áttu þátt í hruninu.

Ég rifja upp annað dæmi sem er enn eldra. Það var þegar við samþykktum hér svokallaða fráveitutilskipun, ég held einhvern tímann í kringum 1995. Ég taldi síðar, eftir að hafa þurft að fylgja henni sem umhverfisráðherra, að ef við hefðum komið að því máli á fyrri stigum og beitt okkur hefði verið hægt að gjörbreyta skilgreiningum varðandi íslenskt samfélag með þeim hætti að við hefðum getað innleitt hana með miklu minni tilkostnaði en raunin varð.