139. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það kæmi hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur á óvart ef hún vissi hvað ég er til í að breyta mörgum greinum í stjórnarskránni. Við sem alþingismenn komumst kannski ekki strax í þá umræðu. En látum það vera.

Varðandi stjórnlagaráðið get ég ekki lesið annað út úr tillögu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur og annarra tillöguflytjenda en að gert sé ráð fyrir að stjórnlagaráðið verði nákvæmlega eins og stjórnlagaþing, nema að það heitir aðeins öðru nafni og að fulltrúarnir, sömu fulltrúar, fá bréf frá forseta þingsins en ekki frá landskjörstjórn. Er það misskilningur hjá mér? Ef það er misskilningur hjá mér að stjórnlagaráðið muni starfa með einhverjum öðrum hætti eða verði á einhvern hátt öðruvísi en stjórnlagaþingið bið ég hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að útskýra það fyrir mér.