139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

málaferli um skipulag Flóahrepps.

[10:52]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tel að ég hafi rökstutt það nægilega í fyrra svari mínu, en ég vil einnig geta þess að ég fékk minnisblað frá Hjalta Steinþórssyni hæstaréttarlögmanni sem mælti með áfrýjun á þeim grunni að rök héraðsdóms væru mjög einföld, aðeins þau að af því að ekki væri sérstaklega bannað að framkvæmdaraðili greiddi kostnað við gerð aðalskipulags yrði að telja það heimilt. Hann sagðist telja þessa túlkun héraðsdóms ótæka og ráðlagði mér að áfrýja. Það gerðu líka fleiri lögmenn án þess að gera það á pappír þannig að ég taldi að vegna þeirra miklu deilna sem hafa staðið um þetta mál væri ómögulegt annað en að reka það til enda.