139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

framkvæmdir í Þingeyjarsýslu í ljósi sameiginlegs umhverfismats.

[11:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka þátttakendum þessarar umræðu fyrir að mörgu leyti ágæta punkta, einkum hæstv. iðnaðarráðherra sem leggur eins og ég áherslu á það að í Þingeyjarsýslu eigi uppbyggingin að vera hæg. Þetta eru langtímaverkefni sem um er að ræða og ég fagna því að Landsvirkjun er að ræða við sex til átta aðila og ekki bara þennan eina, vegna þess að viðræður við þennan eina, forseti, öfugt við það sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson heldur, eru þær sem hafa tafið uppbygginguna í Þingeyjarsýslu. (Gripið fram í.) Síðast má nefna það til að kísilverksmiðjan sem er verið að reisa suðvestanlands komst ekki fyrir í áætlunum á Norðausturlandi og þess vegna er hún hér, vegna þess að álversdraumurinn sem mönnum datt í hug seint um kvöld á Baukinum á Húsavík hefur tafið þetta. Þannig er það. Umhverfismatið er í alvöru og það segir: Það verður að gera þetta rólega vegna þess að rannsóknir eru ekki fyrir hendi sem sýna okkur hver hinn raunverulegi kraftur er í jarðhitageymunum undir Þeistareykjum og Kröflu. Þannig er það.

Svo er annað mál að menn ættu kannski að róa sig áður en þeir koma í stólinn og segja að aðrir hafi ekki snefil af þekkingu á einhverju eins og hv. þingmaður, hinn hægláti, hógværi og lítilláti, Kristján Þór Júlíusson, segir (Gripið fram í.) vegna þess að þeir sem hafa helst staðið fyrir þessu máli geta með sama orðbragði verið sagðir ekki hafa snefil af virðingu fyrir íbúum Þingeyjarsýslu og fyrir framtíðinni í því héraði. Ef þeir vilja 250 þús. tonna álver er alveg klárt að sá sem reisir það vill hafa það 360 þús. tonna eða 400 þús. tonna eða 700 þús. tonna og þá duga ekki jarðhitageymarnir undir Þeistareykjum og Kröflu, heldur verður að taka alla aðra orku í þessu héraði, þar á meðal þyrfti að gera að ambátt drottningu (Forseti hringir.) Þingeyjarsýslunnar, Skjálfandafljótið sjálft.