139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að það eigi ekki við hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur er svo um marga stuðningsmenn þessarar leiðar, ef við orðum það á íslenskan hátt, að þetta sé skásta leiðin til að redda klúðrinu. En þannig nálgast maður ekki það verkefni að setja samfélagi grundvallarreglur, sérstaklega ekki samfélagi sem hefur gert býsna mikið af því að redda klúðrinu með því að gera býsna lítið af því að gæta að grundvallarreglum og grundvallarsjónarmiðum. Það er afstaða mín í þessu máli. Ég hvet flutningsmenn eins og ég gerði áðan, úr því að þeir vilja hafa umboðið svona ótraust og umdeilt, til að sýna því góða fólki sem þeir vilja setja til þessara verka a.m.k. þá virðingu að veita því fullt umboð til að leggja tillögur sínar beint fyrir þjóðina í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Síðan mega tillögurnar koma til þingsins en þetta má ekki vera einhvers konar undirnefnd Alþingis sem þarf að leggja það til við þá þrjátíu og eitthvað sem munu styðja þessa vegferð að hún fái náðarsamlegast að leggja eitthvað til.