139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[14:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það hefur ýmislegt verið sagt í þessu máli en eitt er þó ljóst að sú tillaga sem hér liggur frammi og mælt hefur verið fyrir gengur óumdeilanlega út á það að niðurstaða Hæstaréttar um kosningu til stjórnlagaþings verði að engu höfð eða í það minnsta að farið verði á svig við hana. Það er ekki bara mín skoðun, það er líka skoðun tveggja prófessora við lagadeild Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Það blasir líka við öllum mönnum að úr því að hæstv. innanríkisráðherra lýsir því fyrst yfir að hlíta beri niðurstöðu Hæstaréttar, burt séð frá því hvort þeir eru sammála eða ekki, þá treystir hann sér ekki til að styðja þessa tillögu af þeim ástæðum sem ég hef rakið. Það blasir við.

Í ljósi þess langar mig til að spyrja hv. þingmann hvernig hún telur að þeir alþingismenn sem að tillögunni standa eða ætla að styðja hana geti ætlast til þess að almenningur í landinu hlíti niðurstöðum æðsta dómstóls landsins í öðrum málum ef þeir sjálfir ætla ekki að gera það í þessu. Á hvaða vegferð er þingið og hvert mun þetta leiða? Ég hef miklar áhyggjur af því að verði þessi tillaga samþykkt sé verið að skapa mjög óheppilegt fordæmi sem rýfur þann sameiginlega skilning og sáttmála sem ríkt hefur um áratugi eða aldir að almenningur í landinu og stjórnvöld hlíti niðurstöðum æðsta dómstóls.