139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er tvennt sem mig langar að spyrja hann um.

Fyrra atriðið snýr að þinginu og varðar það hvernig hv. þingmaður sjái fyrir sér að breyta eigi stjórnarskrá þegar þörf er talin á því eða ástæða er til að það sé gert. Það hefur gjarnan verið gagnrýnt að Alþingi hafi ekki getað klárað slíka vinnu þegar á hefur reynt og kann að vera að eitthvað sé til í því. Ég velti því þá fyrir mér hvort hv. þingmaður sjái einhverja aðra leið eða hvort Alþingi sé ekki örugglega fært um að gera þær breytingar sem þarf að gera ef vandað er til verka. Þá á ég við að reynt verði að ná sátt meðal þingmanna um hvernig staðið skuli að slíkum breytingum. Ég held að við hljótum að geta verið sammála um að það er eðlilegt að stjórnarskrá sé endurskoðuð annað slagið en það þarf hins vegar að gera af mikilli yfirvegun en ekki á þann veg að kastað sé til þess höndunum. Það er vitanlega óásættanlegt að vera í miklum flýti í slíkri vinnu.

Hitt atriðið snýr að Hæstarétti. Ég hef reyndar ekki náð að heyra allar ræður í dag en ég velti því fyrir mér hvort menn hafa rætt, og hefur hv. þingmaður einhverja skoðun á því, hvort þetta getur skapað fordæmi gagnvart úrskurðum sem Hæstiréttur kveður upp. Þetta lítur óneitanlega þannig út að þegar Hæstiréttur er búinn að dæma eitthvað ógilt þá eigi að bjarga málunum fyrir horn.