139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:51]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að við þingmaðurinn verðum seint sammála um málið en mér finnst fráleitt að velja eitthvert annað fólk í stjórnlagaráð. Ef Alþingi er að mestu leyti sammála um að skipa í stjórnlagaráð finnst mér algerlega fráleitt að velja annað fólk í það.

Upprunaleg hugmynd okkar í Borgarahreyfingunni, síðar Hreyfingunni, var að velja úrtak úr þjóðskrá og reyna að fá sem breiðastan hóp af venjulegum íslenskum borgurum. Sú hugmynd varð að hluta til að veruleika á þeim þjóðfundi sem haldinn var og stjórnlagaráð mun vinna úr tillögum hans. Mér fyndist við fyrst vera farin að sniðganga réttlætið ef við ætluðum að ganga fram hjá þessu fólki.