139. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:25]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér eru langar umræður um mikið efni ef litið er á það í heild sinni, en umræðurnar eru kannski lengri en efni standa til. Hér virðast nefnilega orðin þau tíðindi að pólitískir eldar eru kveiktir í kringum mál sem hefði betur verið full samstaða um eða að minnsta kosti slík samstaða um að menn gætu veitt þessu tiltölulega hefðbundna og venjulega meðferð þó að þeir hafi á þessu ýmsar skoðanir. Ég get líka haft ýmsar skoðanir á þessu máli sem ekki er það sem við hefðum helst viljað, enda hafa þau tíðindi gerst í millitíðinni sem torvelda það.

Það er eðlilegt að menn hafi skoðanir á því hvað eigi að gera í því tilviki að Hæstiréttur dæmir kosningu ógilda þótt um sé að ræða kosningu til ráðgefandi þings, til ráðgefandi stofnunar. Það er rakið hér í þingsályktunartillögunni að að því loknu voru fjórir kostir fyrir hendi sem menn vita hverjir voru: Í fyrsta lagi uppkosning, þ.e. kosning endurtekin með sömu frambjóðendum. Í öðru lagi að taka stjórnlagaþingslögin til heildarendurskoðunar og kjósa þá til nýs stjórnlagaþings samkvæmt nýjum reglum sem hefði engan enda tekið hér í þinginu og í samfélaginu. Í þriðja lagi sú leið sem nú er lögð til. Og í fjórða lagi endurtalning atkvæða sem nefndin segir réttilega að ekki hafi komið til greina eftir að Hæstiréttur hafnaði slíkri beiðni frá einum stjórnlagaþingmanninum, einum af þeim sem kosinn var hygg ég að það hafi verið.

Síðan getur maður haft skoðanir á því hvað hefði átt að gera þarna. Ég tel sjálfur eða taldi að uppkosning hefði verið eðlilegasta leiðin í þessu þegar ég fékk fréttir af nefndarstarfinu og hafði fyrir því ýmis rök að það væri eðlilegt. Síðan gerðist það að efnt var til annarrar kosningar, nefnilega Icesave-kosningarinnar, sem fram hlaut að fara eftir mjög skamman tíma, og þegar það var ljóst varð uppkosningaleiðin enn sjálfsagðari. Þá blasti við að eðlilegt væri að hafa þessar kosningar á sama deginum, það væri reyndar ekki bara eðlilegt heldur væri það eini kosturinn þar sem við höfum ekki efni á að ganga mjög oft að kjörborði nákvæmlega eins og efnahagsmálin standa á okkar tímum.

Það sem gerðist við þá tillögu var það að hvaða skoðanir sem menn höfðu á henni varð hún ekki rædd vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn reis strax upp á móti henni þannig að ljóst var að hún væri sjálffelld hér á þinginu; sjálfstæðismenn hótuðu satt að segja öllu illu ef sú tillaga yrði borin upp. Í því ljósi er mjög ankannalegt að heyra fulltrúa þess flokks koma hingað upp í stólinn og lofa uppkosninguna sem sérstaklega æskilega leið í þessu efni. Þeir vildu ekki uppkosningu. Það var tekin um það flokksleg ákvörðun hér í þingflokksherberginu eða í Valhöll eða í Hádegismóum, eða hvaðan sem Sjálfstæðisflokknum er stjórnað þessa stundina, að vera á móti því máli og síðan gætu menn tekið ýmsa kosti þar á eftir. Það hafa heyrst mjög skrautlegar yfirlýsingar hér frá sjálfstæðismönnum um hvern kostinn eftir annan.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði að hann vildi kjósa níu menn á þinginu í sérstaka stjórnlaganefnd, menn sem ættu ekki að gera neitt annað, og hún ætti að endurskoða stjórnarskrána. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er ekki sammála Pétri H. Blöndal um þetta og lýsti því yfir að endurtaka ætti kosninguna með 25 einmenningskjördæmum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið hrifinn af þeirri leið, einmenningskjördæmum, af því að hann vonast til þess að þá fái hann hreinan meiri hluta. (Gripið fram í.) Hér mótmælir, forseti, þingmaðurinn í salnum. Ég heyrði hann nú með mínum eigin eyrum, og heyrnartækjum mínum að auki, mæla sérstaklega með þessu í umræðu hér fyrir nokkrum dögum, nema ég sé farinn að rugla sjálfstæðismönnum saman en ég hélt ég þekkti hv. þingmann, (Gripið fram í: … Framsókn …) hinn afar háttvirta þingmann (Gripið fram í: … Sigurður …) og vallarfríða, það vel að ég væri ekki að rugla honum saman við aðra. Síðan kemur Kristján Þór Júlíusson hér með þriðju kenninguna og ég hef nú ekki hlustað nógu mikið á þessar umræður í dag til að geta talið þær allar upp.

Staðan er einfaldlega sú að þessi umræða er svona löng og þetta mál er svona flókið vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið þann kost að vera á móti þessu máli frá A til Ö, vera á móti því frá Íslandi til Albaníu, vera á móti því frá Höfn í Hornafirði til Trékyllisvíkur. En af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn á móti þessu máli, hvort sem það heitir stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð eða stjórnlaganefnd — eitthvað sem heitir stjórnlaga- ef það er gert annars staðar en í þeim valdamiðstöðvum sem Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur telur sig geta haft eftirlit með og kontrólerað? Ja, það eru nokkrar ástæður til þess. Ég held að þær séu fjórar, ég ætla að telja fram fjórar hér, setja í sarpinn fyrir fræðimenn síðari tíma og áhugamenn um pólitík samtímans.

Sú fyrsta er auðvitað sú að Sjálfstæðisflokkurinn er íhaldsflokkur. Það er sterkur straumur í Sjálfstæðisflokknum, þó að hann sé ekki sá eini vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er nokkrir flokkar, sem er ósköp einfaldlega íhaldsstefna sem til varð upp úr einveldi og aðli á 19. öld. Það eru ákveðin viðhorf sem ég get borið fulla virðingu fyrir sem stjórnmálastefnu. Þeim fylgir meðal annars þröng lagahyggja og ég get alveg tekið mark á því og diskúterað það, verið í kappræðu um það fram og aftur að hve miklu leyti hún á rétt á sér og að hve miklu leyti ekki.

Í öðru lagi er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ör í sálinni eftir að hafa hrapað hér eftir 18 ár, eyðilagt Ísland, sparkað Íslandi fram af barmi hyldýpisins, komið því í þá stöðu sem raun ber vitni, og það er sérstaklega sárt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sjá málefni komast í gegnum þingið og verða að veruleika sem uppreisnarfylkingin hér bar fram þegar Sjálfstæðisflokkurinn var felldur. Stjórnlagaþingið er að sjálfsögðu eitt af þeim málum. Þetta er erfitt tilfinningalega fyrir sjálfstæðismenn sem hér sitja og þá sem hér sátu og erfitt fyrir valdamiðstöð Sjálfstæðisflokksins, hvort sem hún er í Hádegismóum eða Valhöll á hverjum tíma.

Í þriðja lagi er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ævinlega verið á móti þátttöku almennings, eða fulltrúa hans annarra en þingmanna, í því að fjalla um alvörumál sem hann lítur svo á að hann hafi sérstakan rétt til að fjalla um og þurfi að hafa allt vald á. Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað valdaflokkur, hann ber með sér pólitískar kenningar og pólitíska tryggingu embættismannastéttarinnar fornu og hinnar vaxandi borgarastéttar á öndverðri 19. öld. Hann er auðvaldsflokkur, hann stóð fyrir uppbyggingu kapítalismans á Íslandi og það þurfti verkalýðshreyfingu og sósíalisma til að þrýsta þeim kapítalisma Sjálfstæðisflokksins yfir í eitthvað sem gæti að minnsta kosti minnt á norrænt velferðarkerfi og það samfélag mannúðar og mildi sem við stefnum að á Íslandi. Sem valdaflokkur af þessu tagi hefur Sjálfstæðisflokkurinn þau sjónarmið að hann þurfi að kontrólera allt sem kontrólerað verður, hann þurfi að geta stöðvað mál í Alþingi með málþófi ef ekki vill betur og hann geti spillt úrslitum mála í nefndum með ýmsum hætti ef þau þóknast honum ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn þarf, fyrir sína hönd og vina sinna og vandamanna, að hafa yfir þessu valdi að ráða og líður illa einmitt núna þegar hann er fjær því en nokkru sinni að hafa þetta vald. Hann kemur sér þess vegna upp hugmyndafræðilegum kenningum í samræmi við það, eins og Marx gamli sýndi ágætlega að ætti sér stað í yfirbyggingu samfélagsins og flokks eins og Sjálfstæðisflokksins þegar menn verja hina hráu hagsmuni sína með hinum fínu kenningum.