139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

hagvöxtur.

[15:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé engin deila um að við viljum öll sjá efnahagsstarfsemina blómgast og meiri kraft koma í hlutina. (Gripið fram í.) Ef menn þekkja einhvern sem er á móti því hefði ég áhuga á að hitta þann hinn sama. (TÞH: Situr þarna …) Þær undirstöður sem við leggjum undir vöxt og uppbyggingu þurfa að vera traustar og þær þurfa að vera sjálfbærar. Mér finnst umræðan stundum litast svolítið af því að það sé hægt að leysa þetta bara með gömlum brellum um að setja einhverja þensluspýtingu inn í hagkerfið og menn halda stutta veislu — og hvað svo? (Gripið fram í.) Svo koma timburmennirnir. Ætli við þurfum ekki að leggja grunn á grundvelli stöðugleika og ábyrgrar nálgunar, bæði í ríkisfjármálum og efnahagsmálum almennt af vexti sem innstæður eru fyrir (Gripið fram í.) og getur orðið varanlegur.

Eitt nefndi hv. málshefjandi ekki, vextina. (Forseti hringir.) Ég er í engum vafa um að það háir okkur hversu háir raunvextir eru hér enn borið saman við önnur lönd sem flest eru komin með þá niður í núll, eða jafnvel neikvæða raunvexti á t.d. (Forseti hringir.) verðtryggðum lánum. Þar sitjum við föst í því að koma á mjög háu vaxtastigi og það er enginn vafi á því að eitt af því sem þarf (Forseti hringir.) til að liðka fyrir fjárveitingum er áframhaldandi lækkun raunvaxta.