139. löggjafarþing — 86. fundur,  14. mars 2011.

athugasemdir frá sveitarstjórn Flóahrepps.

[15:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og forseti las upp við upphaf þingfundar liggur frammi á lestrarsal bréf með athugasemdum frá sveitarstjórn Flóahrepps til hæstv. forseta. Þar segir að bréfið varði ummæli sem fallið hafi á Alþingi í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli íslenska ríkisins gegn Flóahreppi. Án þess að fara að rekja þetta bréf segir þar, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn Flóahrepps fer fram á það við forseta Alþingis að hann beiti sér fyrir því að þeir alþingismenn sem farið hafa offari í fullyrðingum í þingsal Alþingis biðjist afsökunar og dragi þessi ummæli til baka. Verði það ekki gert er því beint til forseta að áminna viðkomandi þingmenn fyrir ummæli sín.“

Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort hún hafi brugðist við þessu erindi eða hvort hún hyggist gera það og hvort hún hafi svarað Flóahreppi þessu bréfi, sem er dagsett 3. mars. Ég er sammála því sem fram kemur í bréfi Flóahrepps að ýmis ómakleg og niðrandi ummæli féllu og því þykir mér rétt að vekja athygli á þessu (Forseti hringir.) og spyrja hæstv. forseta um viðbrögð hans, hvað svari líði.