139. löggjafarþing — 87. fundur,  14. mars 2011.

rekstur innanlandsflugs.

502. mál
[16:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Um margt, og sennilega flest, erum við sammála, ég og hv. þingmaður, og þá ekki síst það sem lýtur að fluginu almennt, að líta beri á það sem almenningssamgöngur eða hluta af almenningssamgöngum. Það er mikilvægt að horfa á samgöngukerfið í heild sinni enda erum við að endurskipuleggja stjórnsýsluna með þá hugsun sem grundvallarforsendu að horfa til flutninga á landi, legi og í lofti.

Hvað er hægt að gera til að efla rekstur innanlandsflugs hér á landi? Bein fjárhagsleg aðkoma ríkisins að innanlandsflugi er með þrennum hætti. Í fyrsta lagi fer fram útboð áætlunarflugs á leiðum sem ekki bera sig á markaðslegum forsendum. Í öðru lagi er um að ræða rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu og í þriðja lagi viðhald og uppbyggingu innviða, þ.e. flugvalla og flugleiðsögukerfa. Ég vil víkja í nokkru að þessum þáttum.

Núverandi innviðir þjóna fyrirsjáanlegu innanlandsflugi nokkuð vel. Stærsta framkvæmdaverkefnið sem fyrir liggur er endurnýjun Flugstöðvarinnar á Reykjavíkurflugvelli. Þá er einnig þörf fyrir tækjageymslu á Reykjavíkurflugvelli og að auki þarf að stunda eðlilegt viðhald, innleiðingu tækninýjunga og ýmiss konar hagræðingaraðgerða. Ég er sammála því sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda, ég tel mikilvægt að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað og þjóni innanlandsfluginu í framtíðinni. Og það er mikilvægt að hafa framtíðina skýra hvað það snertir.

Núverandi rekstur flugvalla og flugleiðsöguþjónustu þjónar fyrirsjáanlegu innanlandsflugi vel. Fjárframlög ríkisins til flugvalla og flugleiðsöguþjónustu hafa vaxið úr rúmlega 350 millj. kr. árið 2000 í rúmar 1.100 millj. kr. 2011 á verðlagi þess árs. Mikið af þeim aukna rekstrarkostnaði stafar af rekstri þriggja millilandaflugvalla í innanlandskerfinu.

Styrkir til innanlandsflugs, í formi útboðs nokkurra áætlunarflugleiða, hófust árið 2001 og náðu hámarki árið 2009 með 343,8 millj. kr. framlagi. Eftir að Landeyjahöfn var tekin í notkun var niðurgreiðslu áætlunarflugs til Vestmannaeyja hætt og eftir að Héðinsfjarðargöng voru tekin í notkun var niðurgreiðslu áætlunarflugs til Sauðárkróks hætt. Fjárframlög árið 2011 fóru því niður í 189,5 millj. kr. Fyrir ríkið er einfalt að bæta í eða draga úr þessum lið en við ákvörðun á umfangi ríkisins á innanlandsflugi verður ríkið að setja sér almennar vinnureglur til að fara eftir og gera sér grein fyrir hverjum og hvaða þörfum á að þjóna. Ég vil geta þess að þótt styrkveitingum til Sauðárkróksflugsins hafi verið hætt þurfum við aftur að skoða málin heildstætt því það fyrirtæki sem sinnti þessu flugi er einnig með flug til Vestfjarða og horft var til þarfa fyrirtækisins þar sem síðan leiddi til þess að ákvörðun var tekin í fyrirtækinu um að halda fluginu áfram til Sauðárkróks. Aftur er þarna mikilvægt að horfa heildstætt á málið.

Nú er unnið að gerð stefnumarkandi samgönguáætlunar til 2022. Í þeirri vinnu eru meðal annars framangreind atriði skoðuð og verða tillögur á þessu sviði lagðar fyrir þingið þegar þar að kemur. Á þessu stigi er þó hægt að nefna að samþykki þingið frumvarp til laga um brottfall laga um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, mál 407, verður áfram stefnt að því að gera Keflavíkurflugvöll fjárhagslega sjálfbæran þannig að fjárframlög ríkisins til flugmála nýtist innanlandskerfinu alfarið. Í ár lendir nær allur niðurskurður til reksturs flugvalla á Keflavíkurflugvelli, meðal annars er skoðað hvort þörf sé á að reka fjóra millilandaflugvelli eða hvort nær sé að veita því fé til innanlandsflugs enn fremur. Þá verður við gerð samgönguáætlunar skoðað hvernig best megi haga innanlandsfluginu með tilliti til samspils þess við aðra samgöngumáta.