139. löggjafarþing — 91. fundur,  14. mars 2011.

kennaramenntun.

519. mál
[18:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Fyrst vil ég nefna hvað varðar PISA að í raun liggur fyrir að umræðan eftir nýjustu PISA-könnun miðar mjög að því að fólk leitar skýringa í öflugum kennurum, góðu kennaranámi, góðu starfsumhverfi og kjörum kennara og að þar liggi skýringarnar á góðum árangri í könnuninni. Ég held að það sé nokkuð sem við eigum líka að vera meðvituð um þegar við horfum til næstu ára og þess hvernig við viljum sjá skólastarf okkar þróast. Það skiptir gríðarlegu máli.

Þar sem hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir nefndi fjarnám á ég ekki von á öðru en HA muni áfram sinna því mikla hlutverki sem skólinn hefur gegnt í uppbyggingu á fjarnámi og einmitt þjónað landsbyggðinni. Ég hef ekki heyrt annað en að það gangi vel.

Hvað varðar leikskólakennaranám þá tengist það vissulega því hvernig við getum reynt að efla stöðu kennara almennt. Það er auðvitað áhyggjuefni að innritun virðist ekki skila sér nægilega vel í leikskólakennaranám. Það skiptir miklu máli að horfa til þess. Ég held að þar þurfi að líta til starfsumhverfis almennt, hvernig við getum eflt það — ekki bara kjörin heldur líka annars starfsumhverfis. Það skiptir miklu máli að á því verði talsverðar breytingar. Við höfum sett okkur það markmið, sem allir hafa verið sammála um, að fjölga fagmenntuðu fólki á leikskólum. Þar hefur þróunin tekið lengri tíma en í grunnskólum en ég held að við séum á réttri leið. En það skiptir miklu máli að horfa til þess hvernig við getum laðað fleiri að í þetta nám.

Akademískt frelsi er vissulega mikilvægt og mikið kappsmál mitt að því verði komið inn í löggjöf um háskóla. Hins vegar liggur líka fyrir að þar sem það er í löggjöf, eins og til að mynda í Finnlandi, gilda aðeins önnur lögmál þegar kemur að því að skipuleggja kennaranám sem hefðbundið akademískt nám, ekki af því að kennaranámið sé ekki akademískt heldur skiptir mjög miklu máli að menntastefna stjórnvalda (Forseti hringir.) endurspeglist í áherslum í kennaramenntun. Ég held að við getum verið sammála um að það skipti miklu máli að námið sem nú er byggt upp (Forseti hringir.) endurspegli að þessu leyti stefnuna í lögunum.