139. löggjafarþing — 94. fundur,  16. mars 2011.

virkjun neðri hluta Þjórsár.

540. mál
[19:30]
Horfa

Flm. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðuna. Ég er sáttur við sumt af því sem kemur fram í henni á meðan annað vekur mér vissulega ótta í brjósti. Hann segir að við höfum ekki ósvipað viðhorf til atvinnumála að mörgu leyti og ég held að það sé rétt. Ég held að hæstv. ráðherra tilheyri þeim armi í Samfylkingunni sem vill fara þær leiðir sem ég og margir af flokksfélögum mínum erum hrifnir af og þar greini kannski ekki stórt á milli. Hann er aftur á móti múlbundinn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi ásamt þeim þingmönnum það vilja og hafa svipaðar skoðanir og hæstv. ráðherra. Þeir eru múlbundnir í þessari kommúnistaríkisstjórn, það er ekki hægt að kalla þetta annað. Ríkisstjórnin hagar sér með þeim hætti að það minnir bara á stjórnarfarið sem var á þeim slóðum og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr að vera spyrtir við slíkt erum við að tala um staðreyndir mála. Þegar hann talaði um virkjanabullur tek ég það (Utanrrh.: … ég var að segja …) ekki til mín frekar en að ég kalli hann stjórnarbullu.

Það er alveg ljóst að leita þarf allra leiða, og undir það tek ég með hæstv. ráðherra, til að koma súrefni til atvinnulífsins. Þetta frumvarp er auðvitað til þess hugsað að koma á framfæri þeim skoðunum sem ég og margir af mínum samflokksmönnum hafa. Stjórnarandstöðunni á Alþingi eru svo sem ekki færð mörg verkfæri til að leggja áherslu á mál sitt önnur en þessi. Ég mun t.d. leggja fram á morgun á þinginu þingsályktunartillögu um að farið verði í sérstakt framkvæmdaátak í vegagerð þar sem ég legg til að 22 milljörðum verði varið í það á árunum 2011, 2012 og 2013 að fara í sérstakt framkvæmdaátak, til viðbótar við það fé sem er á vegáætlun og fyrir utan jarðgangagerð.

Með þessum málflutningi erum við ekki í einhverjum pólitískum sýndarleik heldur að leggja áherslu á skoðanir okkar og stefnu. Ég er ekki að reyna að slá mig til riddara sérstaklega. Hæstv. ráðherra veit það mætavel, virðulegi forseti, eins og aðrir að mér eru þessi mál kær og ég lít á atvinnuleysið í landinu sem okkar alvarlegasta böl sem verður með öllum ráðum að vinna bug á.

Hann spyr: Er endilega nauðsynlegt að virkja í neðri hluta Þjórsár? Já, það er alveg nauðsynlegt að taka ákvörðun um að virkja í neðri hluta Þjórsár og þrátt fyrir það sem er í gangi annars staðar hefur hluta af þeirri orku, eins og Búðarhálsvirkjun, þegar verið ráðstafað, þ.e. sú orka er þegar hugsuð í ákveðin verkefni. Þingeyjarsýslur eru enn óskrifað blað en eru þó komnar í gegnum allt mat og framkvæmdir geta kannski loksins farið að fara af stað og á það þarf auðvitað að leggja áherslu að byggja upp öfluga atvinnu á því svæði. Mér er alveg sama hvort það verður með álveri eða einhverjum öðrum iðnaði, ég vil bara sjá þetta fara af stað. Landsvirkjun er að tala við sex til átta aðila, hæstv. iðnaðarráðherra kemur ítrekað fram og segir að Landsvirkjun sé að tala við sex til átta aðila. Hvort er Landsvirkjun að tala við sex eða átta aðila? Það er heilmikill munur á því. Málið er að það er engin full alvara enn í þessum viðræðum, þ.e. það eru ekki komnar á neinar bindandi viðræður við einhvern einn eða tvo aðila sem ætla að kaupa ákveðið magn af orku. Þeir aðilar eru þó til sem eru tilbúnir að setjast að því borði og klára málið og hefja framkvæmdir. En það er eftir öðru hjá þessari ríkisstjórn að það er verið að tala við svona sex til átta aðila. Eigum við ekki að fara með þá upp í 12 eða 14, virðulegi forseti? Væri það ekki miklu fallegri tala? Það gerist ekkert með því að tala endalaust, hér verður eitthvað að fara að gerast. Það er þannig sem þetta er.

Hér erum við með færiband sem gengur á ákveðnum hraða og taka verður ákvarðanir þannig að þetta færiband sé stöðugt að færa okkur súrefni. Ég kom inn á það í ræðu minni áðan að það tekur tíma að byggja upp, það tekur tíma að selja orku, það tekur tíma að smíða virkjanir og ganga frá þessu öllu. Þess vegna er mikilvægt að fæða færibandið þannig að ekki myndist hér eitthvert stórt gat með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum.

Ég sagði að umhverfisráðherra hefði haft það að markmiði að leggja stein í götu þessara framkvæmda og ég stend við þau orð. Það er skoðun mín, virðulegi forseti, að svo sé. Ríkislögmaður hafði gefið hæstv. ráðherra góð ráð um það að þetta mál væri tapað. Það þurfti ekki að fara með það fyrir dómstóla. Við vitum hver hugur hæstv. umhverfisráðherra er til virkjana. Hún er einfaldlega á móti þeim. Hún styður ekki slíka framkvæmd og þræðir þar með ekki þá fínu línu sem ég tel að þurfi að fara milli nýtingar og verndunar í náttúru okkar. Ég er tilbúinn til að leggja mikið á mig til að taka fullt tillit til náttúrunnar og við eigum að gera það. Ég veit að hæstv. utanríkisráðherra er mér sammála um að það þurfi að virkja og gera það með eins hagkvæmum hætti og með eins litlum umhverfisáhrifum og frekast er unnt.

Af hverju keyri ég ekki fram vantraust á hæstv. ráðherra? Því var svarað af hálfu hæstv. utanríkisráðherra sjálfum af hverju það er ekki gert. Vegna þess, þrátt fyrir að margir stjórnarþingmenn fullyrði að þeir mundu lýsa yfir stuðningi við hana með óbragð í munninum út af þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð, að þá forherðast stjórnarflokkarnir við slíkt mótlæti og það er kannski til lítils að vera að eyða dýrmætum tíma þingsins í að fara í slíkt. Ég fullyrði að það sé lítill ágreiningur í þessum málum innan Sjálfstæðisflokksins, þar erum við mjög samstiga.

Það má vel vera að í Icesave-málinu séu skiptar skoðanir í Sjálfstæðisflokknum eins og í öllum öðrum flokkum. Slíkt mál er af allt öðrum toga og engan veginn hægt að líkja saman. Þar tók ég ásamt mörgum af þingmönnum flokksins þá ákvörðun að styðja það mál. Það hefði að mörgu leyti verið léttara verk fyrir okkur að vera í andstöðu við það mál (Gripið fram í.) og gera hæstv. ríkisstjórn verkin erfiðari en við störfum ekki þannig. Við erum samkvæm sjálfum okkur í því máli og það er mín sannfæring að best sé að ljúka því núna með þeim samningum sem liggja á borðinu og ætla ég þá ekki að fara að rekja sögu þess, hún er efni í miklu lengri og meiri ræðu. Er auðvitað stóralvarlegt hvernig staðið hefur verið að þeim málum af hálfu ríkisstjórnarinnar og hefði ekki verið óeðlilegt að a.m.k. einhverjir ráðherrar ef ekki ríkisstjórnin öll væri farin frá út af þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í því máli.

Það er dálítið sérstakt að eftir að dómur féll samþykkti ráðherra þetta, það var væntanlega einboðið. Ekki hefði verið hægt að koma öðruvísi fram þó að ákveðnar hugmyndir séu um það við ríkisstjórnarborðið að hunsa Hæstarétt og ganga í berhögg við niðurstöðu hans, eins og við sjáum í stjórnlagaþingsmálinu hefði það verið ansi hæpin aðgerð að reyna að rata þá leið í þessu máli.

Hvað er þá í veginum með að hefja virkjanir í neðri hluta Þjórsár? Ríkisstjórnin er í veginum, virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn stendur í vegi fyrir því, það er ekkert flóknara mál. Í stjórnarsáttmála hennar segir að ekki verði teknar neinar ákvarðanir um frekari virkjanir á meðan rammaáætlun liggur ekki fyrir. Ég fór yfir það áðan að rammaáætlun getur dregist þess vegna í eitt ár í viðbót að henni verði lokið og við höfum ekki þann tíma í þessu máli. Allir sem hafa kynnt sér þessi mál vita að virkjunarkostir í neðri hluta Þjórsár eru í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti einhverjir vænlegustu virkjunarkostir sem við höfum þannig að um það verður ekki deilt í framtíðinni hvort virkja eigi í neðri hluta Þjórsár heldur hvenær. Í sjálfu sér þarf því ekki að bíða eftir rammaáætlun og niðurstöðu um þennan virkjunarkost þar. Hann skorar hátt á þeim vettvangi og mun gera það áfram.

Mér er full alvara með því að leggja fram þetta frumvarp. Í því er eins og ég sagði engin sýndarmennska fólgin og í því er heldur ekki fólgið neitt kjördæmapot. Ég er ekki þingmaður Sunnlendinga, ég er þingmaður úr Suðvesturkjördæmi, en það er landinu, okkur öllum og ekkert síður fyrirtækjum og almenningi á höfuðborgarsvæðinu, svo mikilvægt að hjól atvinnulífsins fari að snúast. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að byggja upp atvinnu út um land, að styrkja grunnstoðir byggðar um allt land, ég er mikill landsbyggðarmaður í mér, á heilmiklar rætur í sveit og ber miklar taugar til landsbyggðarinnar. Það er ekki nokkrum blöðum um það að fletta að þegar við settum á fiskveiðistjórnarkerfið á sínum tíma, sem var náttúrlega helsta grunnstoð atvinnulífsins úti um allt land ásamt landbúnaði auðvitað, þegar við fórum í þær breytingar og þá hagræðingu sem markmiðið var með því kerfi og eins í gegnum þá hagræðingu sem hefur orðið í landbúnaði með tilheyrandi fækkun býla og stækkun annarra, láðist okkur að byggja upp annað atvinnulíf í sveitum landsins. Það er auðvitað grunnurinn að þeirri neikvæðu byggðaþróun sem verið hefur. Við þurfum því að hafa áherslurnar í þágu landsbyggðarinnar en þær eru á sama tíma í þágu allra landsmanna.

Hagvaxtarspár eru eins og ég kom inn á áðan lægri en nauðsynlegt er til að Ísland nái vopnum sínum og með þann hagvöxt sem spáð er fyrir þetta ár eiga menn eftir að svitna yfir fjárlagagerð næsta árs. Talað er um að botninum sé náð og við séum farin að snúast upp á við. Það átti að gerast miklu hraðar samkvæmt öllum yfirlýsingum hæstv. ríkisstjórnar. Þannig er það. Það hefur ekki gengið eftir og það er, eins og hæstv. ráðherra veit og þeir þingmenn sem styðja þessa ríkisstjórn, fyrst og fremst vegna óeiningar innan ríkisstjórnarinnar. Það er engu öðru um að kenna og við verðum að horfast í augu við þann kalda verðleika. Menn verða að fara að forgangsraða í þágu þjóðar og hætta forgangsröðun í þágu vonlauss ríkisstjórnarsamstarfs. Það er ekkert öðruvísi.

Um allar þær skoðanakannanir sem hæstv. ráðherra vitnaði til vil ég segja að þær eru gerðar á ákveðnum tíma. Ef hæstv. ráðherra er í hópi með hæstv. forsætisráðherra og er sammála þeirri ræðu sem hún flutti þinginu og þjóðinni í gær þegar atvinnumál voru rædd þá er hann hluti af þeirri veruleikafirringu sem endurspeglaðist í gegnum þá ræðu. Veruleikafirring, virðulegi forseti, því að sú ræða var ekkert annað, og bölmóður út í stjórnarandstöðuna fyrir að halda uppi málefnalegum ágreiningi í þinginu, fyrir að leggja áherslu á að hlutir komist áfram. Það er mikil veruleikafirring ef hæstv. ríkisstjórn trúir því. Og þá kem ég að því sem vakti mér ótta í ræðu hæstv. ráðherra þegar hann talaði um það og mátti skilja það þannig að hér skini gleði og ánægja úr hverju andliti. Það er einfaldlega ekki svo og er auðvitað gríðarlega alvarlegt ef ríkisstjórnarflokkarnir trúa því að það sé staðreynd vegna þess að veruleikinn er allt annar. Ekki þarf annað en að fara aðeins út á vinnumarkaðinn, út á meðal fólks til að átta sig á því. Ég skal glaður fara með hæstv. utanríkisráðherra og öðrum ráðherrum í slíkan bíltúr þó ekki væri nema einn dag og heimsækja nokkra aðila og koma þeim í samband við veruleikann sem er í samfélagi okkar í dag.

Það ríkir vonleysi í samfélagi okkar í dag. Það ríkir vonleysi hjá fyrirtækjunum. Það er bara þannig. Og hjá 15 þúsund manns sem eru atvinnulausir ríkir auðvitað vonleysi og 10 þúsund manns sem hafa flutt af landinu hafa varla gert það með einhverja trú og von í brjósti um að hér mundi grænka á næstu missirum.

Ég held líka að óvissan vegna Icesave sé ofgerð. Ég styð það heils hugar og tel að það sé heillavænlegast fyrir þjóðina að ganga frá því máli á grunni þeirra samninga (Forseti hringir.) sem liggja fyrir en það eitt og sér mun ekki duga til að varpa birtu á samfélag okkar.