139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hagkvæmniathugun á flutningi Landhelgisgæslunnar.

[10:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um stöðu mála á flutningi Landhelgisgæslunnar eða hagkvæmniathugun sem hæstv. ríkisstjórn fól hæstv. innanríkisráðherra þann 9. nóvember að framkvæma. Þetta átti að liggja fyrir tveimur mánuðum síðar, þann 1. febrúar, en eins og við munum var þann 1. febrúar ekki búið að skipa nefndina sem átti að kanna þetta og dagsetningunni var breytt til 15. mars.

Nú er 17. mars og því spyr ég hæstv. innanríkisráðherra hvað þessu starfi líði, hvort nefndin hafi lokið störfum, sem ég vænti þar sem við erum komin fram yfir dagsetningu, og hver niðurstaðan sé.

Það er afar brýnt að skera úr um þetta. Mörg okkar telja að hagkvæmniathuganir hafi farið fram nokkrum sinnum. Gott og vel, ríkisstjórnin vill kanna hagkvæmni þess og þá skulum við gera það og innan gefinna tímamarka. Þetta tengist að sjálfsögðu einnig niðurlagningu Varnarmálastofnunar og hvar hæstv. ríkisstjórn hyggst koma fyrir þeim verkefnum sem hún áður sinnti. Þarna hefur fólk beðið í marga mánuði, starfsfólk þessarar stofnunar, án þess að vita nokkuð hvar framtíðarvinnustaður þess verður og hvort það hafi yfirleitt framtíðarvinnustað þannig að það er mjög brýnt að skera úr um þetta, að ég tali nú ekki um að eyða óvissu um framtíðarfyrirkomulag öryggismála þjóðarinnar.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson lagði fram skýrslubeiðni í utanríkismálanefnd í nóvember sl., hefur ýtt á eftir henni reglulega síðan og honum hefur margoft verið lofað að þessi skýrsla lægi fyrir, (Forseti hringir.) en það hefur verið svikið. Ég spyr: Hvar stendur þessi vinna, hefur nefndin lokið störfum og hver er niðurstaðan?