139. löggjafarþing — 95. fundur,  17. mars 2011.

hernaður Gaddafís gegn líbísku þjóðinni og viðbrögð alþjóðasamfélagsins.

[12:17]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér Líbíu. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir að hafa vakið máls á þessu. Einræðisherrann Gaddafí er að slátra íbúum Líbíu sem aldrei fyrr og Sameinuðu þjóðirnar og vesturveldin standa á hliðarlínunni, e.t.v. vegna þess að það er mikið í húfi þar sem olíugróði og eignarhald á olíulindum er í hættu.

Við á Íslandi sitjum uppi með það að þurfa að horfa á þetta með skelfingu þegar slíkir einræðisherrar geta farið sínu fram án þess að við getum e.t.v. gert mikið í því. Við horfum t.d. á það með skelfingu þegar trúarofstækisríki á Arabíuskaga skjóta borgarana eins og skepnur fyrir það eitt að tjá sig. Utanríkisráðherra okkar hæstvirtur hefur þó verið duglegur við að fordæma alræðisöfl í Egyptalandi, Túnis og Líbíu og það ber að virða og þakka, en það er kominn tími til að stíga skrefinu lengra og e.t.v. viðurkenna stjórn uppreisnarmanna í Líbíu sem lögmæta stjórn landsins. Vissulega eru ekki allir þar innan borðs æskilegir ferðafélagar inn í lýðræðislega framtíðaruppbyggingu landsins en þeir geta þó varla verið verri en núverandi valdhafar og sé honum komið frá munu drápin á borgurunum væntanlega hætta.

Ég vil nota þetta tækifæri, vegna þess að Sameinuðu þjóðirnar eru nú eins og þær eru og þar starfaði ég sjálfur um hríð, og spyrja hæstv. ráðherra hvort og þá hvernig Ísland hefur beitt sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Með hvaða hætti hefur Ísland beitt sér til þess að þrýsta á öryggisráðið um að grípa til aðgerða? Það væri fróðlegt að fá aðeins innsýn í þátttöku Íslands í Sameinuðu þjóðunum þegar svona aðstæður koma upp.

Ég vil svo ljúka máli mínu á því að lýsa því yfir að mér fannst mjög ómerkilegur samanburður formanns Sjálfstæðisflokksins við Íraksstríðið í máli hans áðan. Þar er um allt aðrar aðstæður og allt annað mál að ræða (Forseti hringir.) og algjörlega ósambærilegar aðstæður. (Gripið fram í: … 300 þúsund manns.)