139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

norðurskautsmál 2010.

576. mál
[14:14]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Í raun hefur ekki verið komið á, frú forseti, fastri aðalskrifstofu þingmannanefndarinnar eða ráðsins. Hins vegar varð það að samkomulagi á milli Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar sem gegnt hafa formennsku í ráðherraráðinu, Svíar eru að taka við á þessu ári af Dönum sem tóku við af Norðmönnum, og þegar Norðmenn tóku við settu þeir upp á eigin kostnað skrifstofu í Tromsö sem hefur sinnt utanumhaldi um starfið. Það verður sannast sagna að segja það eins og er að auðvitað er það rétt eins og hv. þingmaður benti á að margir vildu hafa slíka aðalskrifstofu hjá sér. Frændur okkar Norðmenn hafa hins vegar lagt í þann kostnað sem því hefur fylgt að hafa hana í Tromsö og hún verður þar enn um sinn, alla vega á meðan Svíar gegna formennsku í ráðherraráðinu. Ef breyting á að verða á því þarf væntanlega að ná um það samkomulagi og ekki síst að koma undir það einhverjum fjárhagslegum grundvelli sem hægt er að standa á. En ég væri ekki að segja satt ef ég segði ekki frá því hér að auðvitað fyndist mér að það væri vel við hæfi að slík aðalskrifstofa hætti heima á Íslandi.