139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í síðara andsvari mínu vil ég líka gera athugasemd við þá ítrekuðu gagnrýni sem fram hefur komið í máli hv. þingmanns og fleiri að niðurstaða í kosningu til stjórnlagaþings hafi falið í sér einhvers konar sigur fyrir þá sem hefðu mætt í Silfur Egils eða það væru bara þekktir einstaklingar sem þarna hefðu náð kjöri. En ekki hvað? Bjuggust menn við því að kosinn yrði hópur fólks sem hefði farið huldu höfði í samfélaginu og hvergi látið til sín taka í þjóðfélagsumræðum? Það er mjög undarlegur málflutningur sem hefur verið hafður uppi í þessum efnum.

Að sjálfsögðu er það svo að þeir sem hafa tekið þátt í þjóðfélagsumræðunni eru kjörnir til trúnaðarstarfa í þessum efnum. Í þessu tilfelli er það svo að það er þingið sem ákveður að líta til niðurstöðu þessara kosninga þegar það velur í stjórnlagaráðið sem við fjöllum hér um.