139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[14:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nýverið kynntu stjórnvöld mat á því að hugsanlega kynni að þurfa að leggja Íbúðalánasjóði til töluvert fjármagn til að ná því eiginfjárhlutfalli sem ríkisstjórnin telur rétt að sjóðurinn hafi. Matið nam í einu tilviki 48 milljörðum kr. en þá var litið til ýtrasta mats, þ.e. ef hlutir færu allir á versta veg. Meðal annars er gert ráð fyrir því að svokölluð leigufélög fari öll í þrot og að lítið komi upp í á móti af eignum þeirra félaga, jafnframt að íslensk heimili lendi í verulegum ógöngum til viðbótar því sem nú er gert ráð fyrir og að eignir þeirra sem hugsanlega kynnu að ganga upp í skuldir séu þá ekki reiknaðar til fulls, þ.e. ekki gert ráð fyrir að þær nægi fyrir útlánum sjóðsins. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að allt fari á versta veg og þá kunni ríkið að þurfa að leggja þarna inn 48 milljarða. Hvers vegna leggja menn fram slíkt mat? Ég ætla aðeins að velta því fyrir mér á eftir en fyrst að rekja ástæðurnar fyrir því að staða Íbúðalánasjóðs er þessi.

Í fyrsta lagi var farið í mikið átak í uppbyggingu á leigumarkaði í samræmi við stefnu stjórnvalda árið 2008. Þau félög sem tóku að sér þá uppbyggingu lentu í kjölfar efnahagshrunsins í verulegum erfiðleikum og það bitnar á sjóðnum. Í öðru lagi var í neyðarlögunum gert ráð fyrir því að Íbúðalánasjóði yrði gert að yfirtaka íbúðalán frá fjármálafyrirtækjum í rekstrarerfiðleikum og það hefur komið illa við sjóðinn, að sjálfsögðu.

Í þriðja lagi er þetta afleiðing af innkomu bankanna á fasteignamarkaðinn á sínum tíma. Eins og þekkt er fóru viðskiptabankarnir mjög bratt inn á þann markað með því sem nú má kannski kalla undirboðum og neyddu Íbúðalánasjóð þar af leiðandi til þess að fjárfesta upp á nýtt. Fólk greiddi upp lánin sín hjá Íbúðalánasjóði til að taka kostaboðum bankanna. Það varð til þess að peningar streymdu inn í Íbúðalánasjóð og sjóðurinn þurfti því að finna þeim peningum einhvern stað, fjárfesta aftur til að ná þeirri ávöxtun sem gert var ráð fyrir að fengist hefði af íbúðalánunum. Þarna var um að ræða 100–200 milljarða.

Sjóðurinn setti þá peninga í fjárfestingu í bönkunum. Með öðrum orðum voru þeir settir aftur inn í bankana þar sem hluti af þeim tapaðist. Ef það hefði ekki gerst, ef viðskiptabankarnir hefðu ekki ruðst inn á markaðinn með þeim afleiðingum að Íbúðalánasjóður þurfti allt í einu að koma fyrir verulegum upphæðum, sem var í rauninni ekki um annað að ræða en að setja inn í bankana, væri staða Íbúðalánasjóðs sterk núna, þá væri eiginfjárhlutfallið sterkt og Íbúðalánasjóður hefði farið mjög sterkur í gegnum efnahagshrunið.

Í fjórða lagi vil ég nefna áformin um og framkvæmd þessarar svokölluðu 110%-leiðar sem er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum heimilanna og gert er ráð fyrir að kosta muni Íbúðalánasjóð 21,8 milljarða kr. Sú leið nýtist hins vegar því miður ekki sem skyldi, hún nýtist t.d. ekki nógu vel fólki á þenslusvæðunum þar sem fasteignaverð hækkaði mjög hratt á þensluskeiðinu. Umfram allt minnir það okkur á þau tækifæri sem fóru til spillis í því að nýta ekki Íbúðalánasjóð og þá stöðu sem upp kom í kjölfar efnahagshrunsins í viðskiptabönkunum til að færa íbúðalán á einn stað, inn í Íbúðalánasjóð. Íslenska ríkið hafði nefnilega tækifæri til, eins og margoft var bent á á sínum tíma, að kaupa öll íslensku íbúðalánin. Á þeim tíma, rétt eftir hrun, voru fasteignalán metin mjög lágt og þá sérstaklega íslensk fasteignalán. Þau voru í raun metin sem undirmálslán í landi sem skilgreint var í alþjóðasamfélaginu margrædda sem gjaldþrota land. Á meðan verið var verið að selja slík lánasöfn í Bandaríkjunum á 10% af nafnvirði í sumum tilfellum, hefði vel verið hægt að færa rök fyrir því, svo ekki sé meira sagt, að þessi lán væru keypt af íslenska ríkinu á 50% afslætti, það hefði þótt vel í lagt, öll færð inn í Íbúðalánasjóð og færð þar niður þannig að almenningur hefði þá, bæði þeir sem voru með lán í Íbúðalánasjóði og í bönkunum, fengið leiðrétt lánin sín. Og þrátt fyrir það stæði Íbúðalánasjóður sterkur eftir núna.