139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég þakka umræðuna og ágæta yfirferð hæstv. ráðherra.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að vonandi verði upphæðirnar ekki í samræmi við það hæsta mat sem nefnt hefur verið að undanförnu. Eins og hæstv. ráðherra benti á mun ekki liggja fyrir fyrr en seinna á árinu hver niðurstaðan verður. Þess vegna finnst mér svo undarlegt að menn skuli hafa teflt fram þessu ýtrasta mati af hálfu ríkisstjórnarinnar að því er virðist, hæstv. forsætisráðherra þó sérstaklega sem virðist hafa notað það einkum og sér í lagi til að setja í samhengi við Icesave-málið. Sá samanburður er ákaflega villandi. Hæstv. forsætisráðherra virtist finnast freistandi að bera tölurnar saman, benti á að þær væru álíka háar en þar miðaði hún við mjög góða hugsanlega útkomu í Icesave-málinu í fyrsta lagi en mjög slæma útkomu, verstu útkomu hjá Íbúðalánasjóði. Ef þetta hefði átt að vera sanngjarnt mat hefði að sjálfsögðu átt að miða við slæma útkomu eða verstu útkomu hvað varðar Icesave, 200–300 milljarða, en ekki bara það — þá hefði líka átt að sleppa því að taka eignirnar á móti eins og hæstv. forsætisráðherra gerði í mati sínu á hugsanlegu tapi Íbúðalánasjóðs. Hver er þá kostnaðurinn við Icesave? Þá nemur hann mörg hundruð milljörðum, kannski þúsund milljörðum. Auk þess er það í erlendri mynt. Tvöfalda má það vegna margfeldisáhrifanna og þá mætti tala um 48 milljarða tjón hjá Íbúðalánasjóði annars vegar og allt að 2.000 milljarða tjón hvað varðar Icesave ef menn ætla að fara út í slíkan samanburð.

Ég tel mjög óheppilegt að menn reyni að nota Íbúðalánasjóð í þessum tilgangi því frammistaða hans hefur á margan hátt verið góð, hann hefur lifað af gríðarlega erfiðleika. Hann hefur lifað af hrun bankakerfis, hrun heils efnahagskerfis, gríðarleg (Forseti hringir.) vandræði íslenskra heimila og fyrirtækja svo þó hann tapi töluverðu, skárra væri það nú. Við skulum hafa í huga að mikið af því tapi er tilkomið (Forseti hringir.) vegna peninga sem sjóðurinn varð að leggja inn í bankana eftir að þeir fóru inn á markaðinn.