139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:13]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslunnar er talað um það í 6. tölulið, um upptalningu ákvæða, að stjórnlagaráðið eigi að taka sérstaklega til umfjöllunar eftirfarandi þætti: lýðræðislega þátttöku almennings, meðal annars um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Þannig að ég geri ráð fyrir því einfaldlega eins og aðrir að það verði stjórnlagaráðið sem leggi fram tillögu til Alþingis um það með hvaða hætti þjóðaratkvæðagreiðslan verður og að Alþingi þá hugsanlega í framhaldinu leggi fram þingmál í samræmi við lög um þjóðaratkvæðagreiðslu, það væri svona eðlilegur gangur málsins.

Hvað varðar úrslitaatriðið um samþykkt mína á þessari tillögu þá kemur hún hér fram eins og hún er flutt, meðal annars af hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og með fullum stuðningi mínum og Margrétar Tryggvadóttur. Við styðjum þessa tillögu. Við höfum reynt að ná fram viðbótum við hana sem við teljum vera til batnaðar og munum halda áfram að reyna að vinna í því eins mikið og við getum. Það mun ekki hafa úrslitaáhrif á það hvernig ég greiði atkvæði. Ég mun einfaldlega höfða til betri vitundar og skynsemi þingmanna í þeim málum og treysta því að þeir láti skynsemina ráða.