139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í mína aðra ræðu í þessu mikilvæga máli sem liggur fyrir þinginu. Það er ekki mikilvægt að því leyti að ég óska þess að í atkvæðagreiðslu verði það fellt. Það er mikilvægt að því leyti, fyrir mér í hjarta mínu, að verið er að fara fram með óþingtækt mál. Það er verið að fara fram með þingmál sem er beinlínis stjórnarskrársniðganga og það er verið að fara fram með mál sem allir helstu ráðgjafar allsherjarnefndar, þ.e. þeir sem fengu að koma fyrir nefndina, hvöttu nefndina til að fara ekki fram með.

Tveir af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu sitja í allsherjarnefnd, en það eru hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir og Álfheiður Ingadóttir. Þær sitja í allsherjarnefnd, þeirri nefnd sem hefur með málefni dómstólanna að gera. Það er sérkennilegt. Þriðji flutningsmaður tillögunnar er hv. þm. Birgitta Jónsdóttir. Hún átti sæti í þingmannanefndinni sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það sem kom aðallega út úr þeirri skýrslu var mjög skýrt; að Alþingi sjálft, löggjafinn, ætti að vanda alla lagasetningu. Við könnumst öll við atkvæðagreiðsluna sem fór 63:0, það var sú siðbót sem átti að verða á Alþingi.

Ég trúi því ekki fyrr en ég sé það í atkvæðagreiðslu, frú forseti, að forsætisnefndin greiði atkvæði með þessari þingsályktunartillögu. Forsætisnefndin á að standa vörð um það sem fer fram innan húss, það sem fer fram í þessum þingsal. Forsætisnefnd á að skipuleggja þinghaldið, hafa umsjón með alþjóðastarfi, fjalla um fjárhagsáætlanir þingsins og setja almennar reglur um rekstur þingsins og stjórnsýslu. Það er hlutverk forsætisnefndar. Ég geri ráð fyrir því að sá forseti sem nú stendur með þingmönnum sínum í þessum sal komi ekki til með að hunsa niðurstöðu Hæstaréttar.

Mig langar að lesa upp þá þingmenn sem sitja í forsætisnefnd því að þeir eiga að standa vörð um störf þingsins. Það er sjálfur forseti þingsins, Ásta R. Jóhannesdóttir. — Þau undur og stórmerki gerðust að hún greiddi atkvæði á móti skýrslu þingmannanefndar, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, á sínum tíma þegar ákveðin atriði í þeirri nefnd voru borin undir atkvæði. En svo vildi til hún var sem forseti þingsins raunverulega yfirmaður þeirrar nefndar. — Það er hv. þm. Þuríður Backman, það er hv. þm. Kristján L. Möller, það er hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, það er hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sem er flutningsmaður tillögunnar, það er lítil von til þess að hún komi til með að greiða atkvæði gegn þingsályktunartillögunni, og það er hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Þetta eru þeir aðilar sem eru til þess kosnir að fara með og gæta að hagsmunum þingsins, og ekki bara hagsmunum þingsins heldur þeim atriðum sem snúa að vandaðri löggjöf og sjá til að hér fari allt vel fram, sérstaklega í ljósi þess að ákveðnar forsendur voru samþykktar á sínum tíma eins og ég fór yfir.

Ég er búin að fara yfir þá aðila sem sitja í allsherjarnefnd sem fjallar um dómstóla landsins og þar er fremstur í flokki hv. þm. Róbert Marshall. Hann fer fyrir nefndinni og hefur beitt sér mjög í þessu máli. Það leggst illa í mig þegar allsherjarnefnd, sem á nú að sjá um þessi mál og fjalla um þau, beitir sér með þeim hætti sem formaður allsherjarnefndar gerir. Ef við stöndum ekki vörð um þrígreiningu ríkisvaldsins, stöndum ekki vörð um dómstólana, þá er illa komið fyrir okkur sem þjóð. Og ég hef orðið mjög hugsi yfir því hvernig ákveðnir aðilar í allsherjarnefnd hafa beitt sér. Þá er ég að sjálfsögðu að vísa til flutningsmanna tillögunnar, hv. þingmanna Álfheiðar Ingadóttur og Valgerðar Bjarnadóttur.

Ég lít málið mjög alvarlegum augum. Það er mjög alvarleg staðreynd að Alþingi sé að ómerkja úrskurð Hæstaréttar og Hæstarétt sjálfan með því að fara baktjaldamegin inn í þingið með þessa tillögu og breyta henni svo litlu nemi, það er mjög alvarlegt fyrir þessa stofnun sem löggjafa. Ég kem aldrei til með að taka þátt í því að viðurkenna að þetta sé rétta leiðin enda get ég ekki talað á móti öllum þeim stjórnskipunarfræðingum sem komu fyrir nefndina og að sjálfsögðu ekki á móti minni eigin sannfæringu.

Það viðkvæði að þessi þingsályktunartillaga sé skárri en ekkert við breytingu á stjórnarskrá heldur ekki vatni vegna þess að fyrir þessari tillögu liggur úrskurður Hæstaréttar. Ég fer yfir það í nefndaráliti mínu hversu illa þessar kosningar fóru því að á fund allsherjarnefndar komu aðilar frá Stjórnarskrárfélagi Íslands og báru okkur skýrslu kjörstjórnarmanns sem hafði verið við talninguna. Með leyfi forseta langar mig að vísa í þá skýrslu, en þar segir um talninguna:

„Sumir innsláttaraðilar stunduðu „skapandi“ úrlestur, giskuðu á tölu og breyttu svo passaði við frambjóðanda. Fyrir kom að einungis síðasta talan var „misskráð“ hjá kjósanda og tóku innsláttaraðilar þá stundum sér það vald að setja „rétta“ tölu. Þess bar að geta að kerfið bauð upp á að öllum tölunum á atkvæðaseðlinum væri breytt svo tæknilega séð gátu innsláttaraðilar skráð þá tölu inn sem þeim hugnaðist.“

Hér er þessi kjörstjórnarmaður beinlínis að fullyrða að kosningaúrslitunum hafi verið hagrætt í talningunni og það veikir enn grunnstoðir þeirrar þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir. Ég man þetta svo vel því að þegar úrslitin lágu fyrir og kosningahelgin var liðin fóru að berast af því fréttir að það væru 10 þúsund atkvæði sem vélbúnaðurinn gat ekki lesið. Ég kallaði tafarlaust eftir því að allsherjarnefnd yrði kölluð saman til að fara yfir úrslit kosninganna og hvernig stæði á því að svo margir seðlar hefðu verið ólæsilegir og landskjörstjórn kom á fund nefndarinnar. Þá var okkur sagt að allir utankjörfundaratkvæðaseðlarnir hefðu t.d. verið ólæsilegir vegna þess að borðin á utankjörfundarstöðunum í Laugardalshöll hefðu verið svo hrufótt o.s.frv. Að þessu getum við leitt hugann þegar við skoðum hve mörg atkvæði það voru sem vélin las ekki, 13% af greiddum atkvæðum, hvorki meira né minna, og að þeirri staðreynd sem umræddur kjörstjórnarmaður getur um í þessari skýrslu sinni, að tölum hafi verið hagrætt.

Voru það 10 þúsund atkvæði sem voru færð inn á eftir löngu eftir að kjörstöðum lauk og af allt öðru fólki, af því fólki sem átti að sjá um talninguna? Hvað voru þeir atkvæðaseðlar raunverulega margir sem var breytt í talningunni? Þetta er eitthvað sem liggur milli hluta og virðist ekki vekja neins staðar athygli, alla vega ekki í fjölmiðlum. En ég er að reyna að benda á hvað þetta var gallað kosningafyrirkomulag og sérstaklega líka í ljósi þess að þetta gerist á Íslandi árið 2010 eftir bankahrun og eftir alþingiskosningar og eftirlitsnefnd frá ÖSE kom hingað til að hafa eftirlit með alþingiskosningunum. Ég segi ekki annað en að þessir aðilar hefðu þurft að vera í Ráðhúsi Reykjavíkur þessa kosninganótt og sjá hvernig Íslendingar færu með lýðræði sitt.

Það er sorglegt hvernig þetta mál allt er komið en ég endurtek það einu sinni enn: Það eru einstaklingar sem eiga um sárt að binda út af framkvæmd þessara kosninga. Það eru þeir 522 einstaklingar sem gáfu kost á sér í það sjónarspil sem þessi ríkisstjórn stóð fyrir. Það eru þeir sem eiga um sárt að binda í þessu og þó sérstaklega þeir 25 sem voru taldir hafa náð þessu kjöri inn á stjórnlagaþing, sem ég er nú stórlega farin að efast um því svo virðist vera sem mörgum atkvæðaseðlum hafi verið breytt miðað við þessa 10 þúsund atkvæðaseðla sem vélbúnaðurinn gat ekki lesið. Þetta er byggt á svo veikum grunni.

Frambjóðendur hafa haft samband við mig, bæði frambjóðendur sem ekki náðu kjöri og einnig þeir sem náðu kjöri, og eru að velta ýmsu fyrir sér. Til dæmis er í þingsályktunartillögunni miðað við að 25 efstu hljóti kosningu í stjórnlagaráð. Menn hafa beinlínis sagt frá því, þeir sem eru í þessum 25 manna hópi, að þeir hyggist ekki taka sæti í því leikriti sem er verið að setja upp núna. Það var nefnilega gert hlé með ógildingu Hæstaréttar á kosningunum. Það var bara leikhúshlé og nú heldur leikritið áfram með því stjórnlagaráði sem lagt er til.

Þá hef ég reynt að spyrja í þinginu: Eru varamennirnir tilbúnir? Er þetta fólk raunverulega tilbúið til að koma til Reykjavíkur og setjast inn í það húsnæði sem Alþingi er búið að leigja til 1. júní á þessu ári, því þetta þarf að gerast svo hratt? Það er ekkert búið að athuga með þetta fólk, hvorki hina svokölluðu aðalmenn né varamennina, hversu langt á að fara niður listann. Framsögumenn tillögunnar hafa ekki getað sagt mér það. Svo er aðalgrínið í seinni hluta leikritsins það að samt á að vera ákvæði um kynjakvóta inni í varamannalistanum líka. Segjum að litlar heimtur verði inn í þetta stjórnlagaráð, þá gæti þess vegna aðili nr. 50 eða 60 sest í ráðið. Halda tillöguflytjendur að það séu allir á lausu og hafi ekkert að gera annað en sinna dyntum flutningsmanna, að koma hingað og búa til gervistjórnarskrá? Við vitum, eins og ég hef margoft bent á, að stjórnskipunarvaldið liggur hér. Ég held að sá sirkus sem er búið að setja af stað í annað sinn með þessari tillögu sé farinn að hafa áhrif úti í samfélaginu. Það væri áhugavert að kanna hvaða trausts þessi tillaga nýtur. Það sjá þetta allir nema ef til vill ekki flutningsmenn sjálfir. Innst inni grunar mig þó að svo sé því að oft og tíðum verða viðkomandi aðilar í ríkisstjórnarflokkunum mjög uppstökkir þegar þessi mál eru til umræðu.

Einnig hringdi aðili í mig út af þessu máli og sagðist ekki hafa farið að kjósa. Ég sagði: Nú, maður á alltaf að nýta sér kosningarrétt sinn. Þá sagði hann: Ég tilheyri þessum 63% sem var aldrei spurður hvort ég mundi yfir höfuð vilja stjórnlagaþing. Þannig að þessi kjósandi sat heima. Þegar kosningin til Icesave var 6. mars á síðasta ári hvöttu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra fólk til að sitja heima en þá var kosningaþátttakan algerlega frábær og þar með var Icesavesamningi nr. 2 ýtt út af borðinu. En varðandi stjórnlagaþingið fór mikil kynning af stað á sínum tíma og hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra fóru mikinn í fjölmiðlum. Kosningaþátttakan var þó einungis tæp 37%, þau virðast því ekki hafa aðdráttarafl á kjörstað, þessir hæstv. ráðherrar.

Ég var að benda á þá ógildu seðla sem voru eftir kosningarnar, tæp 13%. Ég veit ekki hvort það hafi verið með ráðnum hug eða ekki, og því verður formaður yfirkjörstjórnar á þeim tíma að svara, en hefðu þessir seðlar allir verið dæmdir ógildir hefðu tæp 13% gengið úr skaftinu. Það voru 10 þúsund atkvæði. Þá hefði það orðið staðreynd að einungis 70 þúsund manns hefðu kosið og þess vegna var farið að beita þessari skapandi hugsun og skapandi álestri við atkvæðaseðlana og breyta þeim bara.

Mig langar að minna á það í lokin að Vinstri grænir sáu þann einan leik á borði, þegar kjörstjórnin var búin að segja af sér eftir að úrskurður Hæstaréttar lá fyrir, að endurkjósa sinn mann í landskjörstjórn. Það er einstaklega einkennilegt og sýnir raunverulega mikla skapandi hugsun.

Frú forseti. Ég er búin með tímann en það má vel vera að ég setji mig á mælendaskrá aftur.