139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Við deilum sömu skoðun í þessu máli. Framsóknarflokkurinn hafði það vissulega á stefnuskránni að fara í bindandi stjórnlagaþing en svo kemur á daginn þegar málin eru skoðuð betur að sú leið var ekki fær því að stjórnskipunarvaldið er hjá Alþingi. Þess vegna má ekki binda sig í gamlar klisjur heldur verður að viðurkenna þá staðreynd að það var rangt að fara af stað með bindandi stjórnlagaþing því lagalega er það ekki hægt. Ég var fyrsta manneskjan til að viðurkenna það fyrir hönd flokksins og þegar einhver leið er ófær verður að finna nýja.

Hv. þingmaður er lögfræðilærð eins og ég og við vitum það báðar jafn vel að stjórnskipunarvaldið liggur hjá Alþingi og hér á það að vera. Þarna var gerð tilraun til að úthýsa stjórnskipunarvaldinu til stjórnlagaþings. Það mistókst, tækifærið kom og það var orðið að einhverju sem endaði í kosningu, en svo féll tækifærið og það kemur ekki aftur með úrskurði Hæstaréttar vegna þess að framkvæmdarvaldið klúðraði því máli.

Það sem við erum að ræða er hvort stutt sé á milli flokka. Það er örstutt á milli flokka. Það er að mínu mati fyrst og fremst formsatriði að fara af stað með þetta og virkja þingmenn á ný. Við erum 63 lýðræðislega kjörin og ráðum við þetta verkefni. Mig langar til að vísa til þess að ég er með breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu sem gengur út á það að allir þeir aðilar sem þingmaðurinn taldi upp og öll þau gögn sem hún vísaði til verði skilað hingað til Alþingis í frumvarpsformi, það fari til allsherjarnefndar og nefndin taki á þessu. Þar getur þjóðin komið að málinu með því að senda inn erindi og annað, þannig að málið komið hingað inn.