139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[16:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður rifjar upp að það var með nokkrum ólíkindum hvernig fjárhagsmálefni Íbúðalánasjóðs bar að í desember rétt fyrir þinghlé. Það var vissulega mikilvægt og þakkarvert að hún og fleiri hv. þingmenn skyldu bregðast þannig við að það færi ekki umyrðalaust hér í gegn, að það fór þó ákveðin skoðun fram á þeim þáttum málsins áður en skuldbinding upp á 33 milljarða var afgreidd hér nánast á einu kvöldi eða einni nóttu.

Ég verð að játa að þó að svarið hafi verið upplýsandi að hluta vantar enn þá frekari upplýsingar. Ég geri mér grein fyrir því að það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að hv. þingmaður svari því fyrir hönd fjármálaráðuneytis eða slíkra aðila hvernig ætlunin sé að bregðast við, en miðað við ummæli hennar er ljóst að sá fjárhagslegi vandi sem við verður að glíma að þessu leyti verður óhjákvæmilega mun stærri en við áttum von á. Ég held að við getum orðað það svo og auðvitað eiga öll kurl eftir að koma til grafar í þeim efnum.

Hvað sem því líður þakka ég hv. þingmanni fyrir svörin. Ég held að þau skýri stöðuna að hluta til, en spurningin um það hvernig ríkissjóður Íslands ætlar að bregðast við auknum útgjöldum eða fjárhagslegum skuldbindingum af þessum sökum stendur enn.