139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

húsnæðismál.

547. mál
[16:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að fyrir allflesta þingmenn í þessum sal sé það því miður þannig að þetta hafi komið á óvart, að enginn hafi haft væntingar til þess að útgjöld ríkisins vegna hruns fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins yrðu jafnmikil og raun bar vitni. Þetta er eitthvað sem við hefðum aldrei trúað í ársbyrjun 2008 að ætti eftir að dynja yfir okkur. En varðandi Íbúðalánasjóð — strax í haust þegar þingmannanefndin skilaði þingsályktunartillögu sinni lagði ég til breytingartillögu þar sem kveðið var á um rannsókn á sjóðnum vegna þeirra breytinga á fjármögnun sjóðsins sem var gerð 2003/2004 og þeirra ákvarðana sem voru teknar í trássi við leiðbeiningar Seðlabanka og Hagfræðistofnunar Íslands að setja reglur um lán allt að 90% af veðhlutfalli en grípa ekki til þeirra hliðaraðgerða í útlánastarfsemi sjóðsins sem leiðbeint var um. Það er ljóst að 110%-leiðin er í raun leið til að mæta því tapi sem er mjög líklegt að hefði annars orðið. Og af þeim 48 milljörðum sem nú er verið að tala um er 110%-leiðin um 20 milljarðar og þá er talið að þetta séu afskriftir upp á tæpa 15 milljarða nettó vegna þess að við séum að afskrifa með þessum hætti lán sem annars hefði þurft að afskrifa að einhverju leyti. Ég get réttlætt þetta fyrir mér með því að þetta muni hafa efnahagslega jákvæð áhrif. Þetta muni koma einstaka heimilum vel og þetta muni hafa almenn jákvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn.