139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

afnám gjaldeyrishafta.

[15:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort svona tal eykur trúverðugleikann eða hagvöxtinn, ég er ekki viss um að ræða hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar hafi skilað miklum hagvexti. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu held ég að enginn deili um það að æskilegt sé að vinda sem hraðast ofan af höftunum, í stað þeirra og samhliða því innleiða þá ýmis þjóðhagsvarúðartæki og -tól sem við þurfum að viðhafa til að mistökin frá umliðnum árum endurtaki sig aldrei aftur. Það þurfum við líka að hafa í huga og passa upp á að við búum þá ekki bara til möguleika á nýjan leik til að hér fari svo allt á hvolf í einhverri vitleysu. Það þarf að leggja ábyrgar, raunhæfar áætlanir til grundvallar aðgerðum okkar í þessum efnum og þær þurfa að vera framkvæmanlegar þannig að það sé ekki tekin of mikil áhætta fyrir landið, t.d. að ekki gangi of mikið á gjaldeyrisforðann sem við höfum dýrum dómum tekið að láni. Við megum ekki missa stöðugleikann aftur fyrir borð. Hann hefur tekist að innleiða, hvað sem allri svartsýni líður, (Forseti hringir.) það er mikilvæg undirstaða undir mjög margt af því sem við erum síðan að gera í framhaldinu, að hér hefur tekist að ná stöðugleika í verðlagi, gengismálum, hvað það varðar að ná niður vöxtum (Forseti hringir.) og byggja upp fjármálakerfi sem þarf að þola þær aðgerðir sem síðan verður farið í. (TÞH: … hálfmeðvitundarlaus.)