139. löggjafarþing — 101. fundur,  28. mars 2011.

aðgengi almennings að Vatnajökulsþjóðgarði.

501. mál
[16:41]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem kemur fram í máli hv. þingmanns, það er mikilvægt að halda þessu öllu á lofti og upplýsingarnar þurfa að vera greinarbetri en þær hafa verið hingað til. Eitt af mikilvægustu verkefnum nýrrar stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs er að samþætta upplýsingarnar á svæðunum, þ.e. að styrkja tilfinninguna fyrir því að garðurinn sé ein heild en ekki mismunandi svæði, hvert með sínum brag. Þetta gerum við auðvitað að hluta til með bættum merkingum og eins og þingmaðurinn benti á, með því að flétta merki Vatnajökulsþjóðgarðs við aðra þjónustu í kringum garðinn og stimpla, ef svo má að orði komast, lógó garðsins inn í vitund almennings á Íslandi. Ég held að það sé kannski eitt af því mikilvægasta sem þarf að gera núna svo garðurinn standi betur undir nafni sem þjóðgarður.