139. löggjafarþing — 102. fundur,  29. mars 2011.

störf þingsins.

[14:24]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem maður lætur yfir sig ganga á þessum undarlega vinnustað, t.d. fer þessi sérkennilegi hálftímaupptaktur að dagskrá þingsins venjulega í það að maður sér sjálfstæðismenn standa hér helbláa og froðufellandi í ræðustól yfir því að hér skuli ekki vera uppgangstímar og mikil uppsveifla í öllum greinum.

Þetta lætur maður yfir sig ganga en mér blöskar eiginlega þegar haukarnir í Sjálfstæðisflokknum steypa sér yfir okkur, friðardúfurnar í Vinstri grænum, (Gripið fram í.) og kenna okkur um hernaðaraðgerðir og úthellingu á saklausu blóði í Líbíu. Það er alveg splunkunýtt.

Ég ætla ekki að fara í það hefðbundna morfís-pex sem frammíkallarar, og þeir undarlegu menn sem standa hér í ræðustól svo gott sem á hverjum degi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, temja sér. Ég ætla bara að segja ykkur eitt: Allir friðarsinnar viðurkenna tvær grundvallarreglur, tvær, þ.e. hinn heilaga rétt allra manna til að verja líf sitt og í annan stað hina heilögu mannúðarskyldu að koma þeim til hjálpar sem er í lífsháska. Pælið þið í þessu. (Gripið fram í: Vel mælt.)