139. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2011.

stjórnlagaþing.

644. mál
[12:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hv. alþingismenn þekkja afstöðu okkar sjálfstæðismanna til stjórnlagaþingsins og raunar þess stjórnlagaráðs sem hafið hefur störf. Við höfum gert margar athugasemdir við það og þrátt fyrir áskoranir úr þingsal ætla ég ekki að fara yfir þau sjónarmið sem komið hafa fram.

Varðandi frumvarpið sem liggur hins vegar fyrir þá styðjum við það. Það er eðlilegt að lögin um stjórnlagaþing verði felld úr gildi eins og stöðu mála er háttað og jafnframt að sett sé lagastoð fyrir ráðningu starfsmanna sem sennilega hefur þegar átt sér stað í sambandi við starfsemi stjórnlagaráðsins. Við sjálfstæðismenn munum því styðja samþykkt þessa frumvarps þó að ég haldi til haga athugasemdum okkar við feril málsins að öðru leyti.