139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er fyrst og fremst að vísa til nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins. Sú tilskipun er miklu hættulegri en sú gamla. Við getum vísað í það í deilunni um Icesave að ekki sé ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum. Við höfum vísað í það aftur og aftur og þó að við höfum verið kúguð til að gera samkomulag nokkrum sinnum höfum við getað vísað í að ekki er ríkisábyrgð á innlánstryggingarsjóðnum og taka má lán ef einhver er svo vitlaus að lána honum.

En með nýja kerfinu, með nýju tilskipuninni, á ríkið að sjá til þess að fé sé til. Sá er meginmunur en ég sé akkúrat engan mun á því að ríkið sjái til þess að fé sé til og að veita ríkisábyrgð. Einhver þarf að segja mér hver munurinn er. Samkvæmt nýju tilskipuninni er ríkisábyrgð á innstæðum innlánstryggingarsjóðsins en mörkin eru hækkuð stórkostlega, úr 20 þúsund evrum í 100 þúsund evrur og í stað þess að greiða innan árs frá gjaldþroti á núna að greiða innan tveggja vikna, ef ég man rétt, sem er svo harkalegt að ég veit ekki hvort menn næðu að redda risastórum lánum til að borga út. Menn mundu þá lenda í greiðsluþroti. Þetta er stórhættulegt kerfi sem menn eru að taka upp, alveg stórhættulegt. Og ég ætla að vona að menn hlusti á það sem ég segi. Og ef þeir hafa eitthvað á móti því og trúa því ekki þá eiga þeir að rökstyðja það að þetta sé rangt hjá mér. Til dæmis ef ríkisábyrgð er á innstæðum þá eiga menn að færa rök fyrir því að stjórnarskráin leyfi það að einhverjir menn úti í bæ lýsi yfir ríkisábyrgð.