139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

framhald ESB-umsóknarferlis.

[15:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra heldur áfram að túlka stefnu Framsóknarflokksins og vil ég jafnframt segja honum að því var hafnað með afgerandi meiri hluta að halda þessum viðræðum áfram. Það þarf að segja allan sannleikann í þessu máli eins og öllum öðrum.

Úr því að hæstv. utanríkisráðherra er mjög áfram um að við höldum þjóðaratkvæðagreiðslu liggur nú tillaga fyrir þinginu frá þeirri sem hér talar um að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram ekki síðar en 1. september um það hvort ferlinu skuli haldið áfram eða ekki. Miðað við niðurstöðu Icesave-kosninganna sé ég að það er alveg tímabært að við göngum út úr þessu ferli og leyfum þjóðinni að ráða hvort haldið verður áfram á þeirri ógæfubraut.

Ráðherrann svaraði ekki seinustu spurningunni sem ég bar upp fyrir hann. Hún hljóðaði svo: Hverja telur hæstv. utanríkisráðherra vera hættu á því að ESB hætti sjálft viðræðunum við Ísland og gangi út úr (Forseti hringir.) því gerviumsóknarferli sem við erum í?