139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:51]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að lýsa ánægju minni með þær lagabreytingar sem verið er að gera og þær miklu umbætur sem þetta frumvarp felur í sér, verði það að lögum, sem mér sýnist ætla að verða í dag. Hér er verið að grípa til verndar fyrir börn þessa lands. Börn eru ekki sjálfstæðir eða sjálfráða aðilar á markaði og okkur ber að vernda þau sem slík og ala þau upp, ekki bara sem góða neytendur heldur sem sjálfstætt hugsandi borgara. Þær tillögur sem lagðar eru til og breytingar sem gerðar eru, ekki síst í 41. gr. en einnig í 38. gr., eru allar til mikilla bóta og þeim ber að fagna.