139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kostnaður við sölu Landsbanka Íslands o.fl.

546. mál
[16:18]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugaverð upptalning á tölum. Það var líka áhugavert að fylgjast með því með hvaða hætti þessi fyrirspurn kom hér fram og hvernig hún var síðan notuð, að því er virðist, til að hylma yfir upplýsingar í aðdraganda Icesave-kosninganna. Mig langaði að koma einni athugasemd á framfæri vegna þess, svo ég noti orðfæri hv. þingmanns, að samkvæmt villtustu hugmyndum núverandi ríkisstjórnar, hæstv. forsætisráðherra og ekki síst hæstv. fjármálaráðherra átti hér allt að vera uppi á borðum og mikið gagnsæi að ríkja. Hvernig rökstyður hæstv. ráðherra að þessar upplýsingar hafi ekki legið á borðinu miklu fyrr? Og hvar er gagnsæið? Af hverju þurfti þessu að vera haldið leyndu fram yfir Icesave-kosninguna? Og hvernig tengjast spurningar eitt og tvö? Ég hélt satt best að segja að kostnaður við sölu Landsbankans þegar talað er um Icesave í sömu andrá (Forseti hringir.) væri vegna seinni sölu Landsbankans sem varð þegar erlendir kröfuhafar (Forseti hringir.) tóku yfir hluta af Landsbankanum.