139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins.

445. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu. Eins þakka ég svör ráðherrans og þær yfirlýsingar sem hann gaf um að vilji hans stæði til þess að hækka á ný fjárframlög þegar tækifæri gefst, svo ég taki upp orðfæri hæstv. ráðherra. Það tel ég hins vegar ekki nándar nærri nóg og tek undir fyrirspurn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar um það hvort það komi þá ekki fram í fjárlögum næsta árs. Ef haldið verður áfram eins og stefnt hefur í og einhverjar yfirlýsingar voru um í haust fyrir árið 2012 er starfseminni sjálfhætt á næsta ári.

Ég get ekki tekið undir það með hæstv. ráðherra að það hafi verið eitthvert val fyrir hæstv. fjármálaráðherra og ráðherra landbúnaðarmála um hvar þeir gætu skorið niður. Þeir hafa ákveðið að standa við búvörusamningana. Það hefði a.m.k. verið sérkennilega að verki staðið að fara í samningaviðræður við bændur þar sem bændur komu fyrstir á vettvang og gerðu samninga um að taka á sig kreppuna með því að skerða búvörusamningana og menn síðan kæmu ári síðar og skæru þá niður einhliða frá ríkisvaldinu. Það væri mjög sérkennilegt.

Það sem ég var að benda á er að sjóðurinn virðist geta með eigin fé og litlu fjárframlagi frá ríkinu haldið áfram að styðja þokkalega við þau verkefni sem bændur eru að fara fram með þrátt fyrir að nú hafi reyndar komið í ljós gríðarlegur áhugi sem beinist í margar áttir hjá bændum. Það er bæði Beint frá býli, ferðaþjónusta og ýmsir aðrir þættir sem menn eru að fara í.

Ég bendi á að þessi sjóður er sá eini sem rannsóknartengdir aðilar geta sótt í. Það er mjög alvarlegt á þessum tímum að þar sé skorið niður sem er ekki í samræmi við þær yfirlýsingar sem menn hafa gefið ríkisstjórninni um að standa áfram vörð um mennta- og vísindasviðið (Forseti hringir.) til að skapa hér arðsemi í framtíðinni.