139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

fækkun bænda.

551. mál
[16:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson beinir til mín spurningum um þróun í landbúnaði og þróun í búsetu og í bændastétt á árunum 2000–2010. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa umræðu hingað inn því að það skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli að sjá hvað er að gerast hér á landi og hvernig við gætum þá brugðist við.

Það er samt svo að ekki eru til ákveðnar tölur um fjölda bænda, m.a. þar sem hugtakið bóndi er misjafnlega skilgreint og mismunandi hvernig ábúendur skrá vinnuheiti sitt eins og gerist í öðrum atvinnugreinum. Þá hefur sundurliðun og skráning á þessu 10 ára tímabili einnig tekið breytingum, m.a. vegna lagabreytinga er varða landbúnaðinn. Sá kostur er því valinn að telja saman alla þá einstaklinga sem skráðir voru árið 2000 við búskap með holdanautarækt, svínarækt, varphænur, minka, refi, og fjölda sauðfjárbúa og kúabúa á sama tíma, og bera þennan fjölda saman við sams konar skráningu fyrir árið 2010. Þótt tölurnar séu ekki á allan hátt sambærilegar þar sem annars vegar er um að ræða einstaklinga og hins vegar bú ættu tölurnar samt að gefa nokkuð góða lýsingu á þróun fjölda bænda og býla í landbúnaði. Miðað við ofangreint er spurningunum svarað samkvæmt því:

Í fyrsta lagi er því til að svara að fækkun bænda og/eða búa er um 26%. Sé horft til sauðfjárbúa hefur þeim fækkað á þessu tímabili úr 2.546 í 1.997 bú. Fækkunin nemur 546 búum eða 22%. Hvað kúabú varðar hefur þeim fækkað úr 1.112 búum árið 2000 í 697 bú árið 2010. Fækkunin nemur 415 búum eða 37%.

Spurt er hver þessi breyting sé eftir kjördæmum. Þar sem skráningarkerfi fer eftir landshlutum en ekki kjördæmum miðast svörin við það. Ef litið er til allra búgreina er fækkunin mest á Reykjanesi og á Vesturlandi eða um 29%. Sé einungis horft til sauðfjárbúa hefur þeim fækkað mest á Vesturlandi um 25% og á Vestfjörðum um 27%, en sé einungis horft til kúabúa hefur þeim fækkað mest á Austurlandi um 45% og á Vestfjörðum um 43%.

Síðan er spurt í hvaða þrem greinum landbúnaðar hafi fækkunin orðið mest. Því er til að svara að mesta fækkun framleiðenda á árunum frá 2000 til 2010 er í loðdýrarækt eða um 60%. Þess má geta að refaræktin hvarf á þessu tímabili. Í svínarækt fækkaði búum um 51% og kúabúum um 37% á árunum frá 2000 til 2010.

Í fjórða lagi er spurt: „Hvað hefur afkoma bænda versnað/batnað mikið á tímabilinu?“ Um er að ræða tímabilið frá 2000–2010. Engin almenn athugun hefur verið gerð á afkomubreytingu bændastéttarinnar fyrir umrætt tímabil en ég hef kosið að styðjast við afkomutölur fyrir tvær aðalbúgreinar landbúnaðarins, þ.e. mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, samkvæmt gögnum sem Hagþjónusta landbúnaðarins hefur unnið til að gefa mynd af því sem spurt er um. Að vísu eru tölur ekki tiltækar fyrir árið 2010 og kýs ég því að styðjast við upplýsingar fyrir árið 2009 við þetta svar. Það ber að taka fram að um er að ræða úrtak búa en ekki heild þeirra. Sé litið til kúabúanna er útkoman eftirfarandi:

Árið 2009 nam hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði og óreglulegar tekjur 9.767 þús. kr. á bú en var 5.506 þús. kr. árið 2000 á verðlagi ársins 2009. Þetta er aukning um 77% sem skýrist að hluta til af fjölgun mjólkurbúa um 46% og að hluta til vegna aukinnar nythæðar.

Árið 2000 skiluðu búreikningabúin hagnaði er nam 961 þús. kr. á verðlagi ársins 2009 sem snerist upp í tap er nam 3.894 þús. kr. árið 2009. Skuldir þessara búa hafa því vaxið úr rúmlega 22 millj. kr. á verðlagi ársins 2009 í 81 millj. kr. árið 2009 sem skýrir hluta af versnandi afkomu þeirra.

Frú forseti. Ég kem betur að sauðfjárræktinni í seinni (Forseti hringir.) ræðu.