139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

fækkun bænda.

551. mál
[16:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að fá að ljúka greiningunni áður en ég kem að því sem hv. þingmaður spurði um núna í lokin.

Fyrir sauðfjárbúin árið 2009 nam hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði og óreglulegar tekjur 1.728 þús. kr. á bú en var 1.932 þús. kr. árið 2000 á sama verðlagi. Skuldir þessara búa námu 6,5 millj. kr. árið 2000 á verðlagi ársins 2009 og voru komnar í rúmlega 15 millj. kr. árið 2009. Þetta er þessar tölulegu upplýsingar.

Það er afar mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að hér sé sem mest fæðuöryggi, öryggi í framboði á grunnmatvælum sem við getum svo vel framleitt hér á landi, þ.e. eins og hefur verið nefnt hér bæði kjöt, mjólk og grænmeti. Kornrækt er núna vaxandi og getur orðið og er orðin mjög mikilvæg til að standa á bak við þessa framleiðslu.

Það er grundvallarmunur á þeirri stefnu sem rekin er í landbúnaði hér á landi og á landsvæðum í Evrópusambandinu, eins og í Finnlandi, vegna þess að við semjum um og reynum að tryggja að a.m.k. ákveðið lágmarksmagn af matvælum sé framleitt í landinu og standi til boða innan lands. Samningarnir í Finnlandi eru fyrst og fremst um að þeir auki ekki framleiðsluna. Þar er því grundvallarmunur á.

Útflutningur á lambakjöti gengur núna á góðu verði. Mjólkuriðnaðurinn hefur staðið sig mjög vel í fjölbreyttu framboði á vörum. Við verðum líka að muna að hverju svona verkefni fylgja störf. Matvælaiðnaðurinn á Íslandi byggir einmitt á framleiðslu þessara greina, hann er ekki aðeins að skapa okkur örugg og góð matvæli heldur er skapar hann líka fjölbreytt störf (Forseti hringir.) vítt og breitt um landið. Ég er þeirrar skoðunar að landið eigi að vera sem mest í byggð. Þar er mjög fjölþætt starfsemi, eins og ferðaþjónustan, Beint frá býli og ýmislegt sem er að koma til (Forseti hringir.) af miklum krafti. Við eigum virkilega blómlega tíð fram undan fyrir íslenskan landbúnað, ég tala nú ekki um ef við förum ekki í (Forseti hringir.) Evrópusambandið sem væri það vitlausasta sem við gerðum gagnvart íslenskum landbúnaði svo það sé alveg ljóst.