139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

bygging nýs Landspítala.

631. mál
[18:46]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. velferðarráðherra út í undirbúning byggingar nýs Landspítala og hve mörg störf er áætlað að skapist á byggingartímanum, sundurgreint eftir árum.

Landspítalinn gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar. Þar eru langveikustu sjúklingarnir, þar er boðið upp á sérhæfðustu, viðkvæmustu og flóknustu þjónustuna. Yfir 100 þúsund sjúklingar leggjast inn á spítalann á ári og þar eru framkvæmdar upp undir 15 þúsund skurðaðgerðir árlega. Þetta er líka stærsti vinnustaður landsins. Þarna vinna upp undir 5 þúsund manns í tæplega 4 þúsund stöðugildum. Þrátt fyrir að sjúkrahúsið veiti svona flókna og viðkvæma þjónustu mælist það mjög hátt í trausti, mig langar að draga það fram hér. Gerðar hafa verið skoðanakannanir þar sem 90% svarenda segjast bera mikið traust eða frekar mikið traust til sjúkrahússins og telja að þjónustan sem þar er veitt sé mjög góð. Þessu hafa Björn Zoëga, forstjóri sjúkrahússins, og fleiri haldið á lofti og er ágætt að fólk geri sér grein fyrir því hve þessi stofnun er öflug og mikilvæg.

Um langt skeið hefur verið unnið að því að byggja nýjan Landspítala. Ég ætla ekki að fara fyrir öll rökin sem eru þar að baki en þau eru mörg og mikilvæg og það hefur verið mjög mikil og pólitísk samstaða um að byggja nýjan spítala. Ég vil draga það fram að nokkrir ráðherrar hafa sérstaklega sinnt þessu verkefni. Það eru ráðherrar eins og hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherrar, Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Kristjánsson og sú er hér stendur. Ég vil líka nefna hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson, Ögmund Jónasson, Álfheiði Ingadóttur, og núna síðast hæstv. velferðarráðherra Guðbjart Hannesson. Eins og heyrist af þessari upptalningu eru þetta ráðherrar sem koma úr þremur stjórnmálaflokkum, þ.e. Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og VG og sá síðasti núna, hæstv. velferðarráðherra, úr Samfylkingunni. Allir flokkarnir hafa því staðið þétt að baki þessari byggingu með sínum heilbrigðisráðherrum og viljað sjá hana rísa sem fyrst.

Á sínum tíma var staðsetningin endurskoðuð, það var gert þegar hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, var í embætti. Niðurstaðan var sú að byggja ætti á þeim stað sem búið var að ákveða og það sem fyrst.

Lífeyrissjóðir hafa komið að málinu og búið er að endurskoða byggingaráformin og áfangaskipta. Komið hefur í ljós að það verður sparnaður upp á 19 milljarða á núvirði til næstu 40 ára ef farið verður af stað með þessa byggingu og það þýðir að í 1. áfanga sparast 6% af rekstri spítalans eða 2 milljarðar á ári. Hér er um mikilvæga framkvæmd að ræða og því vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra: Hver er staða þessa máls? (Forseti hringir.) Er ekki alveg öruggt að við munum sjá framkvæmdir fara af stað í haust?