139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding á samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.

676. mál
[15:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég tel að það sé rétt verklag hjá hv. utanríkismálanefnd að vísa þessu máli áfram til umsagnar hjá skattanefnd. Það er rétt sem hann segir, þar liggur sérfræðiþekkingin og reynslan við að vinna mál af þessu tagi. Þar væri hægt að skoða hvers konar tæki felst í reynd í þessum samningi.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég treysti mér ekki til að fullyrða að svarið við hinni upphaflegu spurningu hv. þingmanns sé jákvætt en ég undirstrika hins vegar, út af inntaki spurningar hans, að þessi samningur kveður á um gagnkvæma aðstoð við sameiginlegar skattrannsóknir. Reyndar eru orðin „sameiginlegar skattrannsóknir“ notuð í ákvæðum í samningnum og kveða á um skipti upplýsinga og sömuleiðis um útvegun gagna og skjala.

Hv. þingmaður velti því sérstaklega upp, án þess að hann krefði mig endilega svara, hvort væri hægt að rannsaka t.d. færslur sem starfsmenn hins opinbera hefðu tekið eftir eða starfsmenn í bönkum eða eftirliti hugsanlega og þætti sérkennilegar. Ég mundi að órannsökuðu máli ætla að ef hægt væri að færa að því efnisleg rök, að hugsanlega væri verið að misfara með það sem tengist skattinnheimtu, þá væri það svo. Eins og hv. þingmaður veit er hægt að teygja orðið skattheimta yfir ákaflega víðfeðmt svið mannlegra samskipta þannig að ekki er óhugsandi að svo sé. Það er eitt af því sem hægt er að skoða í umferð nefndarinnar um málið.