139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[16:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan að tilefni þess að við setjum á ræður undir þessu máli er það að þau frumvörp sem liggja fyrir frá hæstv. umhverfisráðherra í tengslum við þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir eru eftir, og þau mál sem annars vegar gera ráð fyrir lagabreytingu og hins vegar frumvarp um úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum eru þess eðlis að þau leiða af fullgildingu þingsályktunartillögunnar og samningsins um aðgang almennings að upplýsingum og þátttöku í ákvarðanatöku. Hafa ber í huga að það er mjög æskilegt að umræðan í umhverfisnefnd sem fær þessi tvö frumvörp til umfjöllunar verði tekin og menn sjái til enda í þeim málum áður en sú þingsályktunartillaga sem hæstv. utanríkisráðherra mælti nú fyrir verði afgreidd frá hinu háa Alþingi.

Þetta ber að hafa í huga sérstaklega þegar við skoðum sögu þessa máls í gegnum tíðina. Eins og hér hefur komið fram gerðist Ísland aðili að Árósasamningnum þegar hann var frágenginn í júní 1998 og var þar meðal 35 ríkja. Síðan hefur gengið alla vega að innleiða þau atriði sem í honum eru en eins og hér hefur komið fram hvílir hann á þremur stoðum.

Fyrsta stoð þessa samnings leggur samningsaðilum og stjórnvöldum skyldur á herðar varðandi aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál. Önnur stoðin skyldar aðildarríkin til að tryggja almenningi þátttöku í ákvarðanatöku. Á þriðju stoðinni byggir samningurinn framangreind réttindi með ákvæðum um aðgang að réttlátri málsmeðferð sem stuðli að auknu vægi samningsins. Það er sú þriðja stoð sem verið er að innleiða hér því að hina tvo fyrrnefndu þættina er búið að innleiða, annars vegar með lögum nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, og hins vegar með lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og einnig lögum nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana. Þar með hefur Ísland með þeim hætti staðið við allar þær skuldbindingar sem Árósasamningurinn kveður á um varðandi fyrstu og aðra stoðina en þriðja stoðin hefur staðið í kerfinu öllu og innleiðing hennar og til þess liggja miklar og margvíslegar ástæður. Það má segja að grunnurinn komi ágætlega fram í áliti sem réttarfarsnefnd setti fram árið 2001. — Ég bið hæstv. utanríkisráðherra að taka eftir því sem ég segi í því sambandi. (Utanrrh.: Alltaf …) Ég efa það ekki að hæstv. ráðherra tekur fullt tillit til þess sem ég segi, en ég var að minna hér á álit réttarfarsnefndar frá árinu 2001 um vandkvæðin við það að innleiða þriðju stoðina í samningnum. Ég gat þess áðan að búið væri að innleiða og setja lög á grunni fyrstu og annarrar stoðar Árósasamningsins en þriðja stoðin hefur þvælst dálítið fyrir okkur, m.a. vegna þess álits sem réttarfarsnefnd gaf dómsmálaráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu þar ár, þegar til stóð að innleiða þetta.

Á það hefur verið bent í athugasemdum sem ég m.a. hef séð að það væri æskilegt að þau sjónarmið sem komu fram í áliti réttarfarsnefndar væru tilgreind í greinargerð með þingsályktunartillögunni eða þeim frumvörpum sem hæstv. umhverfisráðherra leggur fram en svo reynist ekki vera. Það er mjög miður. Það er alveg ljóst, eins og kemur fram í áliti réttarfarsnefndar, að það eru ýmis vandkvæði við að gera þetta með þeim hætti sem hér er lagt til og það er í mínum huga dálítið alvarlegt þegar haft er í huga það hlutverk sem þessi ráðgefandi nefnd fyrir dómsmálaráðuneytið og núverandi hæstv. innanríkisráðherra hefur með höndum og á að hafa með höndum.

Ég vil árétta það sem kemur fram í áliti réttarfarsnefndar en þar sem segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt íslenskri dómaframkvæmd sem er í samræmi við fræðikenningar á sviði réttarfars gildir hér á landi ólögfest skilyrði um að sá sem höfðar dómsmál verði sjálfur að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þeim kröfum sem hann gerir þar. Verður hann að bera sönnunarbyrðina um tilvist þeirra hagsmuna ef efni eru til að draga þá í efa.“

Árið 2001 var m.a. álit réttarfarsnefndar í þá veruna að vara við þeim rúmu skilyrðum sem þarna var unnið með á þessu ári, og ég fullyrði að þau frumvörp sem lögð eru fram af hæstv. umhverfisráðherra jafnhliða þessari þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, þau frumvörp sem hér liggja fyrir, ganga til muna lengra en var gert árið 2001. Þá var niðurstaða réttarfarsnefndar sú að hún treysti sér ekki til þess að mæla með því að þáverandi breytingar næðu fram að ganga því að hún gengi til muna lengra en brýna nauðsyn bæri til vegna ákvæða samningsins. Með öðrum orðum, með þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir erum við að ganga til muna lengra en Árósasamningurinn gerir ráð fyrir án þess að það sé nægilega vel rökstutt. Við þurfum þá að fara yfir það í framhaldi þess máls að taka þau atriði fyrir.

Ég vil nefna þetta sérstaklega vegna orða hæstv. utanríkisráðherra um að það væri algilt að tengja með þessum hætti fullgildingu samnings sem þessa og svo kæmu frumvörpin á eftir, en vegna þessa samspils tel ég nauðsynlegt að gera þetta í samhengi hvert við annað.

Ég vil taka undir orð hæstv. utanríkisráðherra um gildi þessa Árósasamnings. Það er umdeilt og hefur alla tíð verið en í ljósi þess að Ísland hefur verið aðili að þeim samningi síðan fyrir aldamót og unnið á grunni hans er einboðið og sjálfsagður hlutur að vinna að framkvæmd hans, en við þurfum að treysta því að geta náð saman um innihaldið eða hvernig við eigum að ganga til þess verks. Ég tel og hef strax ákveðinn fyrirvara á því að ganga lengra, eins og álit réttarfarsnefndar er, en ákvæði samningsins segja til um, sérstaklega þegar litið er til þess með hvaða hætti næstu nágrannaríki okkar hafa innleitt samninginn.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan að það væri búið að veita almenningi og samtökum aukinn rétt í þessum efnum. Það er hárrétt. Samtök fengu sérstaka stöðu í þeim lagatilvísunum sem ég nefndi áðan og þó svo að gerðir hafi verið ákveðnir fyrirvarar við það var engu að síður lögfestur réttur þeirra til að krefjast upplýsinga og gera athugasemdir.

Í ljósi þessara orða vænti ég þess að við munum eiga ágætissamstarf um að ganga þannig frá þessu máli, sem allir telja mjög brýnt að verði gert, með skynsamlegum hætti. Við eigum ekki gera það þannig að óeining verði um þetta mál. Í mínum huga er það það stórt að ástæðulaust er að láta til þess koma.