139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[18:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hreinskilnina um að tvennt hafi komið til greina, annaðhvort að þjóðnýta fyrirtækið eða fara þá leið sem á að fara á hér. Mér finnst hins vegar að hér eigi í raun og veru að fara að þjóðnýta fyrirtækið, þ.e. að búa ríkið undir þær skaðabætur sem það þyrfti hugsanlega að greiða ef farið yrði í það að þjóðnýta fyrirtækið og ef ekki næðist samkomulag við eigendur þess um hvernig það yrði tekið yfir. Fimm ára starfsleyfi segir í raun og veru það, að mínu viti, að miðað við þá uppbyggingu og fjármagnskostnað og annað sem þyrfti til að taka yfir starfsemi fyrirtækisins mundi enginn nýr aðili fara í það verkefni einungis til fimm ára. Það er því kannski tvennt sem verið er að gera með þessum lögum. Annars vegar að tryggja að þetta fyrirtæki geti starfað eitt í þessum geira og sinnt þessu starfi áfram, sem það hefur gert með miklum myndarbrag, ellegar að ríkið ætlar að setja stein í götu fyrirtækisins eftir einhvern tíma.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra, fyrst hann upplýsti að hann hefði átt samtöl við forsvarsmenn fyrirtækisins, og hann benti líka á það í andsvari sínu að það hefði gerst fyrir um 10 árum síðan að fyrirtækið var einkavætt: Hefur hæstv. ráðherra rætt við forsvarsmenn fyrirtækisins um hvort hugsanlega væri hægt að breyta eignarhaldinu á því ef menn sæju þann kost að það væri meira í þágu ríkisins? Það var nú einu sinni ríkið sem seldi það eins og kom fram í svari hæstv. ráðherra. Hafa farið fram viðræður milli hæstv. ráðherra og forsvarsmanna fyrirtækisins um að ríkið mundi hugsanlega kaupa hluta af fyrirtækinu til baka eða jafnvel allt í staðinn fyrir að fara þessa leið, sem mér finnst í rauninni bera þess vott (Forseti hringir.) að stefna eigi að því að þjóðnýta fyrirtækið innan fimm ára?