139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[18:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég má til með að blanda mér í þessa umræðu um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén en við ræðum hér frumvarp til laga einmitt um þau atriði. Í eðli sínu er hér um að ræða einkaleyfi vegna þess að það væri mjög ankannalegt ef tveir aðilar færu að úthluta lénum á .is og sérstaklega ef þeir gæfu þeim sama nafnið. Það gengi náttúrlega ekki upp. Þetta er einkaleyfi sem við erum að ræða um og þau eru alltaf mjög vandmeðfarin. Þar inn í kemur t.d. verðlagning á lénum, hvað kostar að skrá eitt lén, hvað kostar að viðhalda því o.s.frv. Þetta sýnist mér vera töluvert miklu dýrara hér á landi en erlendis. Á móti kemur að allir hafa kost á því að stofna lén erlendis og margir gera það, eru sem sagt með persónulegt lén úti í heimi, sérstaklega hjá „hotmail“ og öðrum aðilum sem eru með slíka þjónustu þannig að þetta er vandmeðfarið.

Ég held að menn ættu að líta á þetta til framtíðar meira sem einhvers konar auðlind eins og við höfum verið að ræða um, auðlind í sjávarútvegi, auðlind í orku, auðlind í tíðnisviði rafsegulbylgja og slíkt. Ég held að við þurfum að fara að skoða þetta og sjá hvort þetta falli ekki undir reglur um auðlindir, þ.e. að ekki megi framselja þetta til lengri tíma en 65 ára. Mér finnst að það kæmi alveg til greina.

Það frumvarp sem við ræðum hér er ákveðin formgerð á þessu vandamáli. Við þurfum líka að hugsa til framtíðar. Þetta getur orðið miklu stærra mál innan ekki mjög langs tíma. Það er verið að bæta inn endingum úti í heimi, org var ending sem bætt var við, xxx er fræg ending o.s.frv. Það er sífellt verið að víkka þetta út. Maður sér ekki alveg fyrir endann á því hvernig þetta verður eftir 10, 15 eða 30 ár. Menn þyrftu því kannski að liggja dálítið yfir þessu frumvarpi og ég legg til að hv. nefnd sem fær að til skoðunar velti því vel fyrir sér hvernig hún sjái framtíðina. Þó að það sé kannski alveg sérstaklega erfitt að sjá framtíðina á þessu sviði þurfa menn að reyna að glugga svona 5, 10, 15 eða 50 ár fram í tímann og reyna að átta sig á hvað muni gerast.