139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[19:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að mótmæla harðlega því sem hæstv. ráðherra sagði, að ég sé kominn hér upp til að tala máli einhvers fyrirtækis til að seilast ofan í vasa skattborgaranna. Það sagði ég ekki. Ég spurði hvort hæstv. ráðherra hefði einhverjar áhyggjur af því í ljósi þess að þetta fyrirtæki hefur starfað í 25 ár og um það hafa ekki gilt nein lög, alla vega ekki tengd starfsleyfinu, en nú á að setja lög um að starfsleyfið sé einungis til fimm ára. Ég fullyrti ekki að svo væri, ég spurði einungis hæstv. ráðherra hvort hann hefði ekki áhyggjur af því gagnvart atvinnuréttindum, ég sagði ekki að það væri sjálfgefið að svo væri. En því miður er það svo, virðulegi forseti, að við höfum verið að fjalla um mjög mörg mál á undanförnum mánuðum þar sem vanda hefði mátt lagasetningu mun betur. Það var þess vegna sem ég dró þetta fram.

Svo kemur hæstv. ráðherra og sakar mig um að tala máli einhvers fyrirtækis til að seilast ofan í vasa skattborgaranna. Hvers konar málefnafátækt er þetta hjá hæstv. ráðherra? Þetta er bara tómt rugl. Það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra fari rétt með.

Síðan bendir hæstv. ráðherra á það hér og það fer ekkert á milli mála, og ég kom líka inn á það í ræðu minni, að þetta hafi verið byggt upp líka af opinberum stofnunum enda á ríkið, Alþingi, eins og hæstv. ráðherra benti réttilega á, hlut í þessu félagi. En við breytum ekki sögunni. Ég hygg að ég og hæstv. innanríkisráðherra værum sammála um það í dag ef til stæði að selja svona fyrirtæki í eigu ríkisins, ég hygg að við værum alveg sammála um það. En menn breyta ekki eftir á. Þess vegna vil ég hvetja hæstv. ráðherra til þess að reyna að ræða við forsvarsmenn fyrirtækisins um einhverjar aðrar leiðir til að ná markmiðunum fram. Eins og hann viðurkenndi réttilega og kemur fram og gefur augaleið er í raun og veru verið að tryggja einokunarstarfsemi þessa fyrirtækis áframhaldandi til næstu ára.