139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[23:01]
Horfa

Frsm. iðnn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir það sem hún sagði um þetta merka frumvarp og hið merka nefndarálit að því er ég tel og þá merku samstöðu sem var í nefndinni.

Það er alveg rétt að þetta var unnið í náinni samvinnu og samráði við umhverfisnefnd. Nefndirnar tvær héldu tvo a.m.k. þriggja tíma fundi þar sem tekið var á móti gestum og þeir fengu að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og nefndarmenn gátu spurt þá út úr. Ég er alveg sannfærður um að það vinnulag létti mjög þessa vinnu, það er ekki spurning.

Hvað varðar 3. gr. og friðlýstu svæðin þá kom fram mikil gagnrýni á 3. mgr. hennar, þ.e. að friðlýstu svæðin væru tekin út. Margir höfðu þá skoðun að úr því að við værum loksins, vil ég segja, að byrja á þessari rammaáætlun, sem önnur lönd eins og Noregur eru búin að hafa lengi, ætti allt að vera undir. Að lokum féllst nefndin á að láta þennan lið standa óhreyfðan eins og hann er. Meðal þeirra atriða sem komu fram í umsögnum og athugasemdum aðila var að friðlýsingarskilmálar væru mjög misjafnir fyrir fjölmörg falleg svæði, sem að mínu mati hefði aldrei átt að koma til greina að taka til neinnar orkunýtingar heldur bara til nýtingar sem fögur og falleg svæði.

Það koma líka fram að a.m.k. eitt svæði, að mig minnir, er friðlýst en ákveðinn hluta þess má nota til orkunýtingar. Þess vegna kemur fram, eins og ég las upp úr nefndarálitinu, að í rammaáætluninni verði fjallað um það. Það getur komið inn á borð iðnaðarráðherra og farið síðan þaðan sem þingsályktunartillaga til Alþingis og þá verður það okkar alþingismanna (Forseti hringir.) að takast á um þau atriði og finna þeim stað miðað við þá flokka sem hér er gert ráð fyrir.