139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[19:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina er að hún skynjar ekki ákall þjóðarinnar um hvað eru brýnustu verkefni stjórnvalda á þessum erfiðu tímum. Þau eru að leysa skuldavanda heimilanna og fyrirtækjanna, jafnframt að snúa sér að atvinnuuppbyggingu til að fólk geti séð sér og sínum farborða sem mundi gefa heimilunum von til framtíðar. Atvinnuleysið er mesta böl þjóðarinnar í dag. Afleiðing þess er að margir flytja úr landi og geta þar af leiðandi ekki tekið þátt í uppbyggingunni.

Í öllum þessum verkefnum hefur ríkisstjórninni mistekist og þess vegna er ríkisstjórnin rúin öllu trausti hjá þjóðinni. Hún hefur algjörlega brugðist þeim væntingum sem til hennar voru gerðar í síðustu kosningum. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa æ síðan snúist í hringi eins og villuráfandi sauðir og nýtt alla krafta sína í að berjast innbyrðis og notað hótanir til að snúa niður þá þingmenn sem vildu standa við þau kosningaloforð sem þeir gáfu kjósendum sínum í síðustu kosningum.

Ber þar helst að nefna hvernig staðið var að umsókninni um aðild að Evrópusambandinu þar sem Samfylkingin setti Vinstri grænum þá afarkosti að ef þeir brytu ekki helsta kosningaloforð sitt sem skilaði þeim miklu fylgi í kosningunum 2009 — þingflokkur Vinstri grænna skyldi skila nægjanlegum atkvæðum til að tryggja að umsókn um aðild að Evrópusambandinu yrði samþykkt — mundi fyrsta tæra vinstri ríkisstjórnin í sögu lýðveldisins ekki verða mynduð.

Það er mér hulin ráðgáta hvers vegna forustumenn Vinstri grænna gengu að þessum óraunhæfu og ósanngjörnu afarkostum og sviku kjósendur sína. Þeir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sem mest hafa kvartað yfir því að framkvæmdarvaldið sé komið langt út fyrir það sem var samþykkt í þingsályktunartillögunni um aðild að Evrópusambandinu og í raun og veru sé hafið aðlögunarferli að sambandinu geta ekki annað en greitt þessari vantrauststillögu atkvæði sitt. Að öðrum kosti er aðlögun ríkisstjórnarinnar að Evrópusambandinu klárlega í þeirra umboði.

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki hvernig sjávarútvegsmálin hafa verið sett í fullkomið uppnám. Vegferð ríkisstjórnarinnar byrjaði ágætlega og gaf væntingar um að reynt yrði að vinna faglega og með það að markmiði að ná sáttum um þennan mikilvæga og viðkvæma málaflokk. Nefnd þingflokka og hagsmunaaðila sat yfir verkefninu og skilaði nær samhljóða niðurstöðu fyrir meira en hálfu ári. Þarna átti ríkisstjórnin kjörið tækifæri til að setja fram tillögur sem hefðu notið almenns stuðnings og stuðlað að sátt rétt eins og forustumenn nefndarinnar, þingmenn stjórnarflokkanna, hv. þm. Guðbjartur Hannesson og hv. þm. Björn Valur Gíslason sögðu í lok vinnu nefndarinnar.

Þetta var þó ekki gert. Þess í stað er málið orðið að eins konar hráskinnaleik á milli stjórnarflokkanna og innan þeirra. Áfram er þessi mikilvæga atvinnugrein okkar í fullkomnu uppnámi og getur sig hvergi hreyft. Það segir sína sögu að hæstv. forsætisráðherra hefur mánuðum saman neitað að hitta að máli fulltrúa sjávarútvegsins. (Gripið fram í.) Er það bannað að hæstv. forsætisráðherra tali við fulltrúa undirstöðuatvinnugreina þjóðarinnar? Þetta lýsir ekki bara skilningsleysi, þetta vitnar um neikvætt viðhorf forustumanns hæstv. ríkisstjórnar og fullkomið áhugaleysi á málaflokki sem okkur varðar svo miklu. Þetta er þeim mun alvarlegra í ljósi þess að sjávarútvegurinn hefði getað staðið fyrir milljarðafjárfestingum í atvinnuskapandi verkefnum sem um leið hefðu horft til mikilla framfara í greininni. Þeir sem gjalda fyrir þessa óvissu eru fyrst og fremst sjávarbyggðirnar og íbúar þeirra sem hafa orðið af stórkostlegum tækifærum og ekki síst einyrkjar og hinar minni útgerðir í landinu, einmitt þeir aðilar sem talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa talað um að eigi að njóta breytinganna á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Atvinnugreinar sem þjónusta sjávarútveginn og starfa úti um allt land hafa misst af stórkostlegum tækifærum og tekjuauka sem hefði orðið til staðar ef sjávarútvegurinn hefði búið við öruggt rekstrarumhverfi og verið laus við óvissuna. Við þekkjum dæmin. Í slippana koma tæplega nokkur íslensk skip. Hátæknifyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn verða að sækja sér verkefni til útlanda, þau sem á annað borð eiga þess kost. Um viðskipti við íslenskan sjávarútveg er ekki að ræða. Fyrir vikið eru ýmis þessara fyrirtækja verkefnalaus eða verkefnalítil. Það er enginn vafi á því að þau gætu stóraukið umsvif sín ef sjávarútvegurinn hefði fengið starfsfrið. Þetta gerist vegna afleiðinga stefnumótunar ríkisstjórnarinnar sem á hátíðarstundum talar um að efla nýsköpun, sprotastarfsemi og tækniþjónustu. Á sama tíma keppast nágrannaþjóðir okkar og keppinautar á erlendum fiskmörkuðum við að styðja sinn sjávarútveg og skapa honum samkeppnisforskot. Þetta verður ekki svo auðveldlega unnið upp. Tjónið af þessum verkum eða verkleysi ríkisstjórnarinnar verður þess vegna varanlegt og getur birst okkur í verri stöðu sjávarútvegsins og þar með lífskjörum í landinu. Kjarni málsins er þessi: Okkur mun ekki takast að komast upp úr kreppunni sem þjóðfélag okkar er í nema sjávarútvegurinn fái starfsfrið og geti notað afl sitt til þess að fjárfesta. Eða dettur einhverjum í hug að án aðkomu íslensks sjávarútvegs verði einhver viðreisn í efnahagslífinu?

Sú niðurstaða sem fékkst í sáttanefndinni fól í sér miklar breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegsins og var svar við mörgum af þeim aðfinnsluefnum sem menn hafa sett fram í gegnum tíðina varðandi sjávarútvegskerfið. Í raun má segja að það hafi verið söguleg sátt sem útvegsmenn stærri og smærri skipa voru tilbúnir að standa að sem og fulltrúar sveitarstjórnarmanna og nær allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Þessu tækifæri er ríkisstjórnin að glutra niður.

Það er ótrúlegt og sýnir óheilindi og óvild einstakra þingmanna gagnvart sjávarútveginum í landinu og lofar ekki góðu um að það sé nokkur raunverulegur vilji til þess að eiga samráð um mikilvæg mál. Tillögur nefndarinnar fólu í sér tillögu um að ákvæði um eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni yrði sett í stjórnarskrá. Útgerðum væri gert að leigja aðganginn að nýtingu auðlindarinnar og greiða fyrir það sanngjarnt gjald til eiganda auðlindarinnar, ríkisins. Þá var lagt til að hluti fiskveiðiréttarins yrði tekinn til ráðstöfunar í byggðalegum, félagslegum og atvinnulegum tilgangi, ekki síst í minni sjávarbyggðum. Að þessu voru hagsmunasamtök sem alla tíð hafa andmælt slíku tilbúin að standa.

Höfum eitt í huga. Markmiðið með starfinu var að skapa sátt um hagkvæmt fiskveiðistjórnarkerfi. Það er vitaskuld tómt mál að tala um sátt nema þeir aðilar sem innan sjávarútvegsins starfa séu sæmilega sáttir við niðurstöðuna. Sátt í sjávarútvegsmálum verður ekki nema orðin tóm nema um þau sé sátt við sjávarútveginn sjálfan.

Sem betur fer eru mörg tækifæri til staðar í þjóðfélagi okkar en ríkisstjórnin hefur því miður komið í veg fyrir að atvinnulífið gæti nýtt þau. Það blasir t.d. við að öll rök mæla með því að auka aflaheimildir einmitt núna þegar þjóðfélag okkar vantar bæði atvinnu og gjaldeyri. Við sjáum það núna í nýjum mælingum frá Hafrannsóknastofnun að þorskstofninn er enn á uppleið og þess vegna mælir allt með aukinni veiði en innbyrðis ágreiningur stjórnarliða kemur í veg fyrir það. Enginn sem starfar í sjávarútvegi skilur af hverju tækifærið er ekki nýtt einmitt núna til að auka aflaheimildir í stað þess að binda alla báta, skella fiskvinnslufyrirtækjunum í lás og senda starfsfólkið á atvinnuleysisbætur og það gjörsamlega að óþörfu. Þarna sjáum við eitt dæmið um hvernig sundurlyndið er að skaða þjóðfélagið og ekki síst fólkið í sjávarbyggðunum.

Virðulegi forseti. Eitt af mestu ógæfusporum meiri hluta hv. Alþingis á þessu þingi var þegar Alþingi ákvað að halda pólitísk réttarhöld yfir fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Geir H. Haarde. Alþingi ber þar, að mínu mati, með framkomu sinni ævarandi skömm sem þjóðin mun aldrei gleyma. Það mun líka fylgja nokkrum hv. þingmönnum hér hvernig þeir höguðu sér í atkvæðagreiðslunni. Sú skömm mun aldrei af þeim falla, aldrei.

Hæstv. fjármálaráðherra fór mikinn áðan og talaði um þann árangur sem náðst hefði í ríkisfjármálunum. En hvernig hefur ríkisstjórnin og meiri hluti hennar náð árangri í ríkisfjármálunum? Hefur ríkisstjórnin farið í atvinnuuppbyggingu og skapað störf, minnkað atvinnuleysi? Nei, það hefur hæstv. ríkisstjórn ekki gert. Það sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert er að skattpína fjölskyldurnar og heimilin og fyrirtækin í landinu alveg undir drep. Það er glæsilegt afrek. Virðulegi forseti. Mér finnst að hæstv. ráðherrar, margir hverjir, og hv. þingmenn ættu að hætta að líta á það sem afrek að setja fjölskyldurnar og heimilin og fyrirtækin á vonarvöl til þess að halda því fram að náðst hafi mikill árangur í ríkisfjármálunum.

Nær hefði verið að hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn hefðu farið að skapa vinnu og gefa heimilunum von um að geta séð sér og sínum farborða þannig að það væri þá einhver von inn í framtíðina. En það verður ekki, því miður, virðulegi forseti, meðan þessi verklausa, handónýta kommúnistastjórn situr að völdum. (Gripið fram í.) Þess vegna er mjög mikilvægt að strax verði boðað til kosninga og því fólki komið frá sem hefur ekkert gert nema þvælast fyrir eðlilegri atvinnuuppbyggingu og starfsemi hér í landinu. (Gripið fram í.)