139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[20:22]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Sjálfstæðisflokkurinn kýs á þessum tímapunkti, að afloknum Icesave-kosningum, að láta á það reyna hvort ríkisstjórnin hafi þann styrk sem þarf til að halda áfram því verkefni sem við tókum að okkur, að endurreisa íslenskt efnahagskerfi úr rústum frjálshyggju og óstjórnar sem leiddi til eins stærsta bankahruns sem orðið hefur í víðri veröld. Við skulum ekki gleyma því.

Hvað tók við eftir að fyrsta vinstri stjórn lýðveldissögunnar tók við annað en það stóra verkefni að endurreisa efnahag landsins og sjá til þess að allar grunnstoðir samfélagsins væru áfram til staðar og að við gætum áfram búið við öflugt velferðar- og menntakerfi? Tryggt að í landinu væri traust fjármálakerfi og róið að því öllum árum að koma skuldamálum heimila og fyrirtækja í viðunandi horf?

Í þessum verkum hefur verið unnið þrotlaust síðastliðin tvö árin frá kosningum og ekki skrýtið að eitthvað hrikti í þegar unnið er við þær sársaukafullu aðstæður að óhjákvæmilega þarf að hagræða hjá ríkinu í rekstri og leggja á skatta svo við getum unnið okkur sem hraðast út úr kreppunni og atvinnuleysinu.

Ríkisstjórnin hefur í þeirri erfiðu vinnu haft að leiðarljósi að beita skattlagningu með jöfnun í huga og að dreifa byrðunum sem mest. Einnig hefur verið haft að markmiði að verja grunnlífeyri og bætur almannatryggingakerfisins.

Vissulega hefur sá tími sem liðinn er frá hruni verið mörgum mjög erfiður og tekið hefur í innviði samfélagsins en það var líka vitað fyrir fram að við gætum ekki sem þjóð komið okkur á réttan kjöl aftur nema með sameiginlegu átaki og miklum viljastyrk. Þar er engin keðja sterkari en veikasti hlekkurinn.

Þjóðarhlekkir okkar í uppbyggingarstarfinu hafa verið Icesave-deilan. Ómæld er sú orka og vinna sem farið hefur í það mál sem er birtingarmynd hrunsins. Í þrígang hefur verið reynt að leysa þetta deilumál sem núverandi ríkisstjórn fékk í arf frá Sjálfstæðisflokknum og við höfum reynt að leysa það með samkomulagi að hætti siðaðra þjóða. Það tókst ekki. Þjóðin hefur nú vísað málinu til dómstóla og með það verkefni munum við vinna af fullum krafti með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

ESB-málið hefur svifið yfir vötnum frá því að ákveðið var í stjórnarsáttmála að sækja um aðild og láta reyna á samninga sem lagðir yrðu fyrir þjóðina. Vinstri græn eru ekki hlynnt aðild að ESB en þar mun þjóðin eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við treystum lýðræðinu og upplýstri umræðu um hvar hag okkar er betur borgið, innan eða utan ESB. En hver treystir nú ekki þjóðinni til að leysa stór deilumál í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ég spyr.

Eitt af baráttumálum ríkisstjórnarinnar er að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða með það að markmiði að tryggja fullt forræði þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins og að setja sérstakt ákvæði í stjórnarskrá um að fiskstofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar og úthlutun aflaheimilda sé eingöngu tímabundinn afnotaréttur sem myndi ekki eignarrétt. Við munum mæta áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um atvinnuréttindi og að tryggja jafnræði við úthlutun aflaheimilda. Við ætlum að tryggja rekstrarskilyrði sjávarútvegsins og sjálfbæra nýtingu fiskstofna og að búsetuskilyrði sjávarbyggða séu reist á traustum grunni. Nú sér fyrir endann á þeirri miklu vinnu við gerð nýrra laga um stjórn fiskveiða. Líta þau dagsins ljós á þessu vorþingi. Þar verða grundvallarbreytingar á ferðinni. Engar breytingar verða gerðar á kvótakerfinu ef Sjálfstæðisflokkurinn kemst að völdum. Munið það. Þess vegna er skylda okkar sem vorum kosin til að breyta óréttlátu kvótakerfi að klára það og koma því í höfn. Og það munum við gera með framlagningu frumvarpsins í vor.

Oft er glöggt gests augað og það heyrðum við á Lars Christensen, hagfræðingi Danske Bank, sem telur að efnahagur Íslands sé á uppleið. Ég er honum svo hjartanlega sammála því að við höfum mikla möguleika á að komast hratt út úr kreppunni. Þessi ríkisstjórn hefur staðið sig vel við erfiðar aðstæður og gefst ekki upp þó að á móti blási. (Forseti hringir.) Við munum uppskera árangur fyrir þjóðina með þrautseigju og úthaldi. Betri og bjartari tímar eru fram undan (Forseti hringir.) — en án Sjálfstæðisflokksins við stjórnartaumana.